„Þetta var góður dagur, hver einasti hringur var góður. Ég hef aldrei náð ráspól hérna en það kom loksins. Hraðinn er svakalegur í gegnum beygjurnar hér. Valtteri [Bottas] var góður og mun hafa möguleika á að keppa við okkur þegar líður á,“ sagði Hamilton sem mun ræsa fremstur á morgun.
„Ég var að bæta mig í gegnum alla tímatökuna. Ég vildi að fólkið heima gæti fundið kraftana í gegnum beygjurnar,“ sagði Valtteri Bottas sem varð annar í dag en mun ræsa sjöundi á morgun. Það þurfti að skipta um gírkassa í bíl hans.
„Tímatakan var nokkuð góð. Ég reyndi í þriðju lotu að taka meiri áhættu en það var til einskis. Ég vissi að þótt ég yrði þriðji þá myndi Valtteri fá refsingu og ég færast upp á fremstu rásröð,“ sagði Sebastian Vettel á Ferrari sem varð þriðji en mun ræsa annar því Bottas fær refsingu.
„Ég er nokkuð sáttur, ég átti betri seinni tilraun í þriðju lotunni. Það er meira af beygjum sem eru teknar á fullri inngjöf hérna sem er ekki okkar sterkasta hlið. Það er líka kaldara hér en í Malasíu sem mun útskýra að mestu leyti muninn á frammistöðu okkar hér og þar,“ sagði Max Verstappen sem varð fimmti í dag.

„Liðið stóð sig vel í að endurbyggja bílinn sem ég klessti í morgun. Við borgum fyrir það og því þarf ég að taka refsingu á morgun og fá nýjan gírkassa. Ég veit ekki hvað við getum gert á morgun,“ sagði Kimi Raikkonen sem varð sjötti en mun ræsa 11.
„Það er ekki auðvelt að taka fram úr hérna. Ég veit ekki alveg hvort eitt eða tvö stopp er rétta leiðin,“ sagði Esteban Ocon, sem ræsir fimmti á morgun eftir að hafa verið sjöundi í tímatökunni.
„Ég held að það hafi verið aðeins meira í bílnum. Tímatakan skipti engu máli og því held ég að það hafi ekki verið nein ástæða til að taka áhættur. Við höfum mikið að gera á morgun, við munum ræsa aftast og það er erfitt að taka fram úr hér.,“ sagði Fernando Alonso sem varð 10. en þurfti nýja vél fyrir keppnina og þarf að ræsa aftastur.