Umfjöllun og viðtöl: Grótta - Stjarnan 24-25 | Gróttan enn án stiga

Benedikt Grétarsson skrifar
Egill Magnússon, stórskytta Stjörnunnar.
Egill Magnússon, stórskytta Stjörnunnar. vísir/eyþór
Stjarnan vann í kvöld baráttusigur á Gróttu í Olís-deild karla í handbolta, 24-25. Stjarnan er þar með komin með sex stig í deildinni en Grótta er hins vegar á botninum með ekkert stig. Staðan í hálfleik var 12-10, Gróttu í vil.

Garðar Sigurjónsson skoraði sjö mörk fyrir Stjörnuna og Lárus Gunnarsson varði 16 skot í markinu. Markahæstur í liði Gróttu var Maximillian Jonsson með 13 mörk og Hreiðar Levý Guðmundsson varði 23/2 skot.

Heimamenn byrjuðu betur og komust í 4-2. Vörnin og markvarslan voru til fyrirmyndar en reyndar voru Stjörnumenn pínu klaufar í sínum færum. Það batnaði til muna á næstu mínútum hjá Stjörnunni og allt í einu voru gestirnir komnir í 7-9.

Þá var hins vegar komið að þætti Hreiðars í marki Gróttu. Hreiðar hefur leikið frábærlega í vetur og hann skellti í lás á síðustu 15 mínútum fyrri hálfleiks. Alls endaði kappinn með 14 skot varin í hálfleiknum og varði alls 58% skota sem rötuðu á markið. Þvílík frammistaða!

Svíinn Jonsson vaknaði í sókninni á sama tíma eftir erfiða byrjun og það var þessum tveimur öðrum fremur að þakka að Grótta hafði tveggja mark forystu eftir fyrri hálfleikinn, 12-10.

Stjörnumenn voru miklu ákveðnari í seinni hálfleik og náðu fljótlega að komast yfir. Þetta gerðist fyrst og fremst vegna varnarleiks og þá var gamli Gróttumaðurinn Lárus Gunnarsson traustur bak við vörnina.

Gestirnir virtust vera að skilja Gróttu eftir í stöðunni 25-22 en mikið kæruleysi í bland við góða baráttu Gróttumanna gerði leikinn æsispennandi á lokamínútunni. Stjarnan hafði þó taugar og getu til að klára verkefnið og því eru Garðbæingar komnir með sex stig í deildinni. Grótta bíður hins vegar enn eftir sínum fyrstu stigum.

Af hverju vann Stjarnan leikinn?

Garðbæingar mættu virkilega vel stemmdir til seinni hálfleiks og allt annað var að sjá vinnslu manna í vörninni. Þessi varnarleikur skilaði nokkrum auðveldum mörkum úr hröðum upphlaupum. Stjarnan hafði úr sleiri mönnum að velja á ögurstundu og því fór sem fór. Of mikið mæddi á 3-4 leikmönnum Gróttu, til að klára leikinn með sigri. Engu að síður eru margir jákvæðir punktar sem Grótta tekur með sér í næsta leik.

Hverjir stóðu upp úr?

Bjarki Már Gunnarsson batt saman vörn Stjörnunnar af miklum móð og var tveggja manna maki. Lárus byrjaði óvænt í markinu og varði vel gegn sínum gömlu félögum. Garðar var erfiður á línunni og er leikmaður sem skilar alltaf góðri vinnu til liðsins.

Hreiðar Levý Guðmundsson var frábær í markinu hjá Gróttu og Maximillian Jonsson dró vagninn í sókninni. Ásmundur Atlason er leikmaður sem vert er að gefa gaum en það vantaði fleiri til að hjápa til í sókn heimamanna.

Hvað gekk illa?

Það gekk illa að koma boltanum framhjá markvörðum liðanna. Fjölmörg dauðafæri fóru forgörðum en auðvitað verður að taka hattinn ofan fyrir Hreiðari og Lárusi. Hreiðar hefur reyndar byrjað deildina af miklum krafti og spurning hvort að Geir Sveinsson fari ekki að íhuga endurkomu í landsliðshópinn?

Hvað gerist næst?

Grótta fer í stutta ferð í Safamýri og mætir þar Fram. Miðað við spilamennsku liðsins í undanförnum leikjum, verður um hörkuleik að ræða. Það býr mikið í þessu Gróttuliði en það vantar bara gamla góða herslumuninn.

Stjarnan fær nýliða Víkings í heimsókn í Mýrina í Garðabæ. Miðað við hvernig deildin hefur spilast hingað til og þann mannskap sem er í liðunum, mætti líklega flokka allt annað en Stjörnusigur sem gríðarlega óvænt úrslit. Sjáum hvað setur, Stjarnan átti góða og slæma kafla í kvöld en gæðin eru til staðar.

Kári: Tjái mig ekki um dómgæsluna

Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, var að vonum frekar ósáttur eftir tapið en vildi ekki fara í það að tjá sig mikið um dómara leiksins en Gróttumenn voru afar ósáttir við nokkrar ákvarðanir þeirra í leiknum.

„Nei nei, er ekki bara best að maður sleppi því bara? Maður leyfir þessum mönnum bara að vinna sína vinnu og höfum ekki fleiri orð um það,“ sagði Kári.

„Það voru nokkur smáatriði í þessum leik sem falla ekki með okkur á lokakaflanum. Við erum að elta allan seinni hálfleikinn og Stjarnan hefur ákveðið tak á leiknum. Við náum aðeins að stríða þeim í lokin en það var of seint í rassinn gripið.“

Gróttumenn hafa verið grátlega nálægt því að krækja í stig, þrjá leiki í röð.

„Þetta er bara enn einn leikurinn sem við erum ansi nálægt því að taka eitthvað. Ég er mjög ánægður með að menn eru að leggja sig mikið fram. Það vantar ekkert upp á það að við fáum gott framlag frá öllum sem við höfum til taks,“ sagði Kári.

„Hreiðar er að spila frábærlega og vörnin á köflum mjög góð. Það koma svo moment þar sem við erum að láta fara illa með okkur en við erum auðvitað að spila á móti frábærum handboltamönnum eina ferðina enn. Í sókninni þurfum við svo framlag frá fleiri leikmönnum.“

Grótta er enn án stiga og Kári er auðvitað ekki sáttur við þá staðreynd.

„Ef maður fer í þessa tapleiki og klárar þá sáttur, þá er maður á vondum stað. Maður er brjálaður eftir þetta en það er ekkert annað að gera en að fara inn í æfingavikuna og byggja sig upp fyrir næsta leik,“ sagði Kári Garðarsson.

Einar: Maður hefur ekki hundsvit á þessu

„Það er stórt hjarta í þessu Gróttuliði og þeir börðust fram á síðustu sekúndu leiksins. Mér fannst við reyndar getað verið búnir að klára þetta meira sannfærandi en þetta eru tvö stig og ég er virkilega ánægður með það,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir sigurinn gegn Gróttu.

Einar er ekki sammála blaðamanni að betur hafi gengið hjá Stjörnunni að eiga við markvörðinn Hreiðar Levý Guðmundsson í seinni hálfleik.

„Mér fannst reyndar ganga bölvanlega að koma boltanum framhjá Hreiðari allan leikinn! Varnarleikurinn okkar var betri í seinni hálfleik að mér fannst en þetta snérist fyrst og fremst að sigrast á Hreiðari sem var gjörsamlega stórkostlegur í kvöld. Við vorum með góða markvörslu en hún féll alveg í skuggann af þessum stórleik Hreiðars.“

Athygli vakti að Lárus Gunnarsson byrjaði leikinn í markinu hjá Stjörnunni í stað Sveinbjörns Péturssonar.

„Við ákváðum að byrja með Lalla og ég er ánægður með hans leik í kvöld. Ég hélt reyndar á tímabili að við værum að detta niður í markvörslu í seinni hálfleik en þá var pikkað í mig og mér sagt að við værum með tæplega 50% markvörslu og þá er frekar erfitt að taka menn út af vellinum. Maður hefur náttúrulega ekki hundsvit á þessu og það er ágætt að hafa góða menn sem pikka í mann og láta mann vita hvernig málin standa,“ sagði Einar glottandi að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira