Erlent

Trump sagður ætla að rifta kjarnorkusamningnum við Íran

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump hefur fundið samkomulaginu í Írani flest til foráttu.
Trump hefur fundið samkomulaginu í Írani flest til foráttu. Vísir/AFP
Heimildamenn Washington Post segja að Donald Trump Bandaríkjaforseti ætli að draga til baka stuðning við kjarnorkusamninginn við Írani í næstu viku. Frestur Trump til að staðfesta hvort að Íranir fari að skilmálum samningsins rennur út eftir tíu daga.

Trump hefur verið harðorður í garð samkomulagsins sem Bandaríkjamenn og fimm aðrar þjóðir gerðu við Írani árið 2015. Það felur í sér að Íranir takmarki kjarnorkuáætlun sína gegn því að refsiaðgerðum þjóðanna verði hætt.

Í ræðu sem hann ætlar að halda í næstu viku er búist við að Trump muni segja samkomulagið í andstöðu við hagsmuni Bandaríkjanna.

Washington Post segir að áform Hvíta hússins séu þó ekki fastmótuð og að stefnan gæti breyst. Heimildamenn þess segja að Trump ætli þó ekki að ganga svo langt að biðja Bandaríkjaþing um að leggja refsiaðgerðir aftur á Íran.

Trump hefur til 15. október til að gefa þinginu skýrslu um hvort að Íranir séu að fara eftir skilmálum samkomulagsins og hvort hann telji það hjálpa þjóðarhagsmunum Bandaríkjanna.

Velji hann að hætta stuðningi við samkomulagið þarf þingið að ákveða næstu skref og hefur það sextíu daga til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×