Dalirnir eru héraðið þar sem Auður djúpúðga nam land, þar bjuggu feðgarnir Eiríkur rauði og Leifur heppni, þar gerist Laxdæla, þar var Guðrún Ósvífursdóttir, einnig Geirmundur heljarskinn og Ólöf ríka og þar liggja rætur Sturlunga.
„Ég hef kallað þennan hring gullna söguhringinn vegna þess að hér er eiginlega saga í hverri einustu þúfu,“ segir Svavar Gestsson, fyrrverandi ráðherra, og þylur upp sögustaðina, eins og Hvamm, Staðarfell, Skarð, Staðarhól, Sælingsdalslaug, Sælingsdalstungu, Kvennabrekku, Sauðafell og Hjarðarholt.
En það er ósköp lítið gert með þessa miklu sögu. Eitt dæmi er höfuðbólið Staðarhóll í Saurbæ þar sem sagnaritarinn og lögsögumaðurinn Sturla Þórðarson bjó á 13. öld. Staðarhóll er nú í eyði.

Utan um verkefnið á Staðarhóli heldur Sturlunefnd undir formennsku Einars K. Guðfinnssonar, fyrrverandi forseta Alþingis. Aðrir nefndarmenn eru Bergur Þorgeirsson í Reykholti, Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, Sveinn Pálsson, sveitarstjóri Dalabyggðar, og Svavar, sem er ritari nefndarinnar.
„Og Einar Kristinn kallar mig aðalritara, af vissum ástæðum,“ segir Svavar og hlær.
Svavar greindi nánar frá þessum hugmyndum í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 í kvöld. Þar rifjaði hann einnig upp æskuárin á Fellsströnd.
„Um tíma var ég heitur stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins og svo náttúrlega Framsóknarflokksins,” sagði Svavar.

„Svavar og Svandís eru mjög, mjög nánir vinir. Þau eru líka eiginlega jafnaldra,” sagði Guðrún og hló en ummælin skýrast betur í þættinum.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: