Skálholt er ekki aðeins fyrsta biskupssetrið heldur var helsta valdamiðstöð Íslands og skólasetur um sjöhundruð ára skeið þar til Suðurlandsskjálfti lagði staðinn í rúst árið 1784. Við fornleifauppgröft árið 1954, í tengslum við endurreisn Skálholts, komu í ljós merkar minjar um hinn forna tíma, þar á meðal jarðgöng, sem eiga sér sögu aftur til Sturlungaaldar.
„Þetta er sennilega eitt af elstu mannvirkjum sem við eigum úr okkar sögu og menningu hér á Íslandi. Það eru heimildir um þessi göng, að því er talið er, frá því snemma á 13. öld,“ segir Halldór Reynisson, starfandi Skálholtsrektor.

Halldór kveðst hafa orð sérfræðings á Þjóðminjasafni um að fundur steinkistunnar í Skálholti árið 1954 sé merkilegasti fornleifafundur Íslandssögunnar.
„Og það eru allt of margir Íslendingar sem hafa bara ekki hugmynd um þetta núorðið. En þetta er bara einn af okkar þjóðargersemum, - einn af fáum gripum sem við eigum frá þjóðveldisöld, - og við vitum hver það var sem hvíldi í kistunni. Og við vitum hvaða listamaður gerði þann listmun sem þar fannst. Þannig að þetta tengir okkur beint við þessa gömlu tíð snemma á 13. öld,“ segir Halldór.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 í kvöld: