Handbolti

Kári: Ég var frábær

Benedikt Grétarsson skrifar
Kári á ferðinni í kvöld.
Kári á ferðinni í kvöld. vísir/ernir
Kári Kristján Kristjánsson átti frábæran leik fyrir ÍBV í 33-34 sigri gegn FH í kvöld. Kári skoraði tíu mörk og fiskaði ótal vítaköst.

Þjálfari FH, Halldór Jóhann Sigfússon sagði í samtali við blaðamann eftir leik að hann væri ekki alveg að skilja hvernig FH-ingar gátu lent í svona miklum vandræðum með línumanninn sterka. Þessa skoðun skilur Kári sjálfur, hins vegar engan veginn.

„Ég skil ekki af hverju hann skilur ekki að þeir hafi lent í vandræðum með mig. Ég var bara frábær,“ segir Eyjamaðurinn léttur og eðlilega fullur af sjálfstrausti.

Kári segist sáttur með margt í leik ÍBV í kvöld.

„Við vorum flottir. Í fyrri hálfleik vorum við mjög beittir varnarlega, allir að vinna vel og Andri Heimir kemur geggjaður inn. Í seinni hálfleik er bara helvítis værukærð yfir okkur. Við megum bara ekki falla í svona gryfju. Við eigum til dæmis ekki endalaust að vera að týna boltann úr netinu þegar við erum búnir að skora í sókninni. Ég er óánægður með varnarleikinn í seinni hálfleik en við troðum inn einhverjum 34 mörkum, þannig að það er bara gott.“

Það er ekki langt í EM í handbolta og því ekki úr vegi að spyrja línumanninn hvort að stórmótið sé á bak við eyrað.

„Já, ég er aðal og þá hlýt ég að fara á stórmót, er það ekki?“

Blaðamaður bendir góðfúslega á þá staðreynd að landsliðsþjálfarinn Geir Sveinsson ráði samsetningu íslenska landsliðsins.

„Já, hann Geiri hringir örugglega í mig og vill spjalla um þetta,“ sagði hinn afar létti Kári Kristján að lokum


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×