Erlent

Segir viðræðuslit varðandi Brexit vera möguleg

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Michel Barnier, yfirmaður samningamála hjá Evrópusambandinu, segir að mögulegt sé að slitna muni upp úr viðræðum sambandsins við Breta varðandi útgöngu landsins úr sambandinu. Hann segir að þegar sé verið að undirbúa hvað gera megi verði af viðræðuslitum. Hann vonast til þess að samkomulag náist.

Brexit-Ráðherra Bretlands, David Davis, segir tíma til kominn að báðar hliðar komi saman og finni lausnir á deilunni. Evrópusambandið gefur yfirvöldum í Bretlandi tvær vikur til þess að útskýra ákveðin lykilatriði varðandi útgöngu landsins úr ESB eða að öðrum kosti slaka á kröfum sínum.

Sjá einnig: Bretland fær tvær vikur til að útskýra ákveðin lykilatriði



Davis segir þó að góður árangur hefði náðst í viðræðunum en hins vegar væru nokkur og mjög mikilvæg málefni sem enn væri deilt um.

Haft var eftir Barnier í dagblaði í Frakklandi í dag að viðræðuslit myndu hafa miklar afleiðingar og að allir þyrftu að undirbúa sig fyrir slíkt. Hann sagði ESB þegar hafa byrjað þá vinnu.



Þá sagði hann einnig, öfugt við Davis, að viðræðurnar hefðu gengið hægt varðandi ýmis lykilatriði.

Leiðtogar ESB munu koma saman í Brussel nú í desember og þar munu þeir meðal annars ræða viðræðurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×