Innlent

Hlýnar um miðja viku

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Á fimmtudag er hita spáð nokkuð yfir frostmarki víðast hvar á landinu.
Á fimmtudag er hita spáð nokkuð yfir frostmarki víðast hvar á landinu. Skjáskot/Veðurstofa
Búist er við því að hlýna muni í veðri og þykkna upp um miðja viku, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Þá má búast við snjókomu suðvestanlands í dag.

Í dag má gera ráð fyrir hita nálægt frostmarki við sjávarsíðuna og þá verður suðaustan kaldi víða um landið vestanvert en 10-15 m/s við suðurströndina.

Þá má einnig búast við snjókomu suðvestanlands í dag, sem fyrst mun gera vart við sig á Reykjanesi. Ofankoman verður ekki langvinn en stytta á upp strax í kvöld.

Reikna má með bjartviðri og hægari vindi norðaustan- og austantil en næstu daga verður áfram dálítill éljagangur við ströndina. Hiti verður enn fremur við frostmark við sjávarsíðuna en frost inn til landsins.

Útlit er fyrir hægan vind í vikunni og víða bjartviðri en áfram talsverðu frosti. Þá hlýnar upp úr miðri viku, eins og áður sagði, og þykknar einnig upp með rignigu um tíma en að mestu þurrt suðaustan- og austanlands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á mánudag og þriðjudag:

Hæg norðlæg eða breytileg átt en norðan 5-10 austast á landinu. Víða bjartviðri, en dálítil él með norður- og austurströndinni. Frost 3 til 14 stig, kaldast inn til landsins.

Á miðvikudag:

Vestan og suðvestan 3-10 m/s, skýjað og lítlsháttar slydda eða rigning norðantil. Hlýnandi veður.

Á fimmtudag og föstudag:

Fremur hæg vestlæg átt, skýjað og dálítil væta, en þurrt suðaustan- og austanlands. Hiti 2 til 7 stig.

Á laugardag:

Útlit fyrir ákveðna sunnanátt og víða rigningu, en þurrt á Norðausturlandi. Hiti 3-8 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×