Erlent

Segist hafa hafnað „hugsanlegu“ tilboði um manneskju ársins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti ber blendnar tilfinningar til tímaritsins Time.
Donald Trump Bandaríkjaforseti ber blendnar tilfinningar til tímaritsins Time. Vísir/afp
Donald Trump Bandaríkjaforseti segist hafa fengið símtal frá tímaritinu Time þar sem honum var tjáð að hann yrði „hugsanlega“ valinn „manneskja ársins.“ Talsmenn tímaritsins hrekja hins vegar þessar yfirlýsingar forsetans.

Vals Time-tímaritsins á „manneskju ársins“ er alla jafna beðið með mikilli eftirvæntingu og þykir útnefningin mikill heiður. Trump hlaut sjálfur titilinn í fyrra og sat fyrir á forsíðu blaðsins undir yfirskriftinni „forseti sundraðra Bandaríkja.“

Trump segir tímaritið nú hafa „hugsanlega“ boðið honum titilinn annað árið í röð en forsetinn greindi frá málinu á Twitter-reikningi sínum í gær. Hann sagði þó „hugsanlega“ útnefningu ekki nógu góða og því hafi hann ákveðið að hafna boðinu.

„Tímaritið Time hringdi til að segja mér að ég yrði HUGSANLEGA valinn „Maður (Manneskja) ársins“ eins og í fyrra, en að ég yrði að fallast á viðtal og umfangsmikla myndatöku. Ég sagði að „hugsanlega“ væri ekki nógu gott og sat hjá. Takk samt!“ ritaði forsetinn.

Tímaritið svaraði þó þessari fullyrðingu forsetans strax í gær og segir hann fara með rangt mál. Þessi háttur sé ekki hafður á við val á manneskju ársins og að Time muni enn fremur ekki ræða val sitt fyrr en á útgáfudegi, þann 6. desember næstkomandi.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Trump tjáir sig um val Time-tímaritisins á manneskju ársins. Hann brást illa við árið 2015 þegar Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hlaut titilinn en hann sagði hana vera að „eyðileggja Þýskaland.“ Þá hefur hann margoft hvatt tímaritið til að útnefna sjálfan sig og á móti gagnrýnt það harðlega fyrir að útnefna sig ekki.

Bandaríska dagblaðið Washington Post greindi frá því í sumar að forsíður Time-tímaritsins hangi á veggjum nokkurra golfklúbba í eigu forsetans. Trump er sjálfur á téðum myndum og fyrirsagnir gefa til kynna að hann hafi verið valinn manneskja ársins. Time-tímaritið kannast þó ekki við umræddar forsíðumyndir.


Tengdar fréttir

Fékk rúman milljarð í fría auglýsingu frá Trump

Er Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað að ráðast á körfuboltapabbann LaVar Ball með látum á Twitter gerði hann sér líklega ekki grein fyrir því að hann væri í raun að gera Ball risastóran greiða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×