Afar sjaldgæft er að einhverjir frá Norður-Kóreu flýi yfir sameiginlegt öryggissvæði ríkjanna (JSA) á landamærunum. Tíu ár eru síðan það gerðist síðast.
Þegar myndbandið byrjar má sjá hermanninn keyra herjeppa í átt að landamærunum. Hann fer í gegnum fyrsta öryggishliðið og má sjá hermann skjóta á eftir honum.
Hermaðurinn keyrir svo út af veginum og festir bílinn. Þegar hermenn Norður-Kóreu hlaupa að honum hleypur hermaðurinn á brott með hermennina á hælunum. Þeir skjóta á hann og hitta hann minnst fjórum sinnum. Honum tókst þó að komast yfir landamærin þar sem hann féll í jörðina.
Einn hermaður Norður-Kóreu elti hann yfir landamærin en sneri þó við. Skömmu seinna má sjá tvo hermenn Suður-Kóreu skríða að hermanninum og draga hann í skjól. Hann hefur nú gengið í gegnum þó nokkrar skurðaðgerðir og er sagður úr lífshættu.
Sjá einnig: Hermaðurinn vaknaður og horfir á suðurkóreskar kvikmyndir
Hér að neðan má sjá tvær útgáfur af myndbandinu. Sú efri hefur verið stytt og útskýringum bætt við. Hin neðri er upprunaleg útgáfa.