Handbolti

Seinni bylgjan: Patrekur fann lykilinn að sigri á móti FH í bílskúrnum hjá Degi Sig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Selfyssingar sýndi styrk í 10. umferð Olís deildar karla með því að vinna topplið FH á Selfossi. Selfossliðið var að sjálfsögðu í sviðsljósinu þegar tíunda umferð Olís-deildarinnar var gerði upp í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport í gær.

Dagur Sigurðsson var gestur þáttarins ásamt Gunnari Bergi Viktorssyni og fóru þeir vel yfir leik Selfoss og FH og sögðu sína skoðun á því sem réð úrslitum í þessum leik.

„Patrekur kom þeim á óvart með mjög agressívri vörn og þeir áttu engin svör. Þá lendir Gísli líka í því að geta ekki blómstrað og það er það sem gerðist í þessum leik,“ sagði Dagur Sigurðsson og Tómas Þór Þórðarson, stjórnandi Seinni bylgjunnar, sýndi þá myndbrot með þessari framliggjandi vörn Selfossliðsins.  

„Þeir skipta í 3:3 og þetta sér maður nú ekki á hverjum degi,“ sagði Tómas Þór en Dagur vissi meira um málið.

„Ég þekki söguna á bak við það. Ég bauð Patreki í heimsókn og við fórum aðeins út í bílskúr og kíktum á einn leik frá 1992. Þá var Valsliðið að spila svona á Víkingum og ég held að það hafi verið kveikjan að þessu,“ sagði Dagur Sigurðsson og bætti við:

„Ég heyrði nú í honum í dag og hann neitaði því ekki,“ sagði Dagur. Tómas skellti þá myndbroti úr þessum leik Víkinga og Vals frá því fyrir 25 árum.

„Þetta sá Patrekur í bílskúrnum hjá mér viku fyrir leik. Leggið nú saman 1 og 2,“ sagði Dagur hlæjandi. Það má sjá allt innslagið í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×