Innlent

Gæti orðið „mjög blint“ á Norðurlandi og Vestfjörðum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það er snjóþekja eða hálka á vegum um allt land.
Það er snjóþekja eða hálka á vegum um allt land. VÍSIR/VILHELM
Vegagerðin varar við hríðarbakka sem er væntanlegur úr norðri. Veður mun versna til muna norðanlands og eins á norðanverðum Vestfjörðum. Vetrarfærð er á Norðurlandi, snjóþekja eða hálka víðast hvar. Þar má búast við 15-20 m/s með ofankomu og skafrenningi.

„Mjög blint verður við þessar aðstæður og einnig á láglendi. Þó ekki snjói á sunnanverðum Vestfjörðum verður þar skafrenningur sem og á Snæfellsnesi og í Borgarfirði. Jaðar hríðarbakkans er skarpur. Honum er spáð við Tjörnes. Þar fyrir austan helst veður skaplegt,“ eins og segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.

Þæfingsfærð er á Dettifossvegi en þungfært á Siglufjarðarvegi frá Hofsósi í Ketilás. Eins er hálka eða snjóþekja á Vesturlandi og Vestfjörðum og eitthvað um éljagang og skafrenning. Þæfingur er á Vatnaleið, Ísafjarðardjúpi og úr Bjarnarfirði og norður í Gjögur en þungfært er á Kletthálsi. Þæfingur er á Hrafnseyrarheiði en Dynjandisheiðin ófær.

Sjá einnig: Mjög kuldalegt í kortunum

Þá er einnig hálka eða hálkublettir á flestum vegum á Suðurlandi. Á Austur- og Suðausturlandi er víða hálka eða snjóþekja en greiðfært frá Norðfirði suður að Höfn.

Þá vill Vegagerðin minna á að „örfáir vegir eru í þjónustu allan sólarhringinn. Í grennd við marga þéttbýlisstaði eiga vegir að vera færir til kl. 22 en víða lýkur þjónustu um kvöldmatarleytið eða jafnvel enn fyrr - og sumir vegir eru ekki í daglegri þjónustu,“ segir á vef Vegagerðarinnar og bætt við:

„Eftir að þjónustu lýkur getur færð spillst nokkuð hratt þegar snjóar eða skefur og ástandið getur því orðið nokkuð annað en þegar vegir voru hreinsaðir síðast og færð skráð. Því er alltaf ráðlegt að skipuleggja ferðir innan þjónustutíma eftir því sem kostur er.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×