Erlent

Bandaríkin viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump sagði þetta nauðsynlegt skref til að ná fram varanlegum friði í heimshlutanum.
Donald Trump sagði þetta nauðsynlegt skref til að ná fram varanlegum friði í heimshlutanum. Vísir/afp
Bandaríkin hafa viðurkennt Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. Frá þessu greindi Donald Trump Bandaríkjaforseti í ræðu sinni fyrr í kvöld.

Forsetinn greindi jafnframt frá því að hann hafi beint þeim orðum til utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna að undirbúa flutning sendiráðs Bandaríkjanna frá Tel Avív til Jerúsalem.

Trump sagði löngu vera kominn tíma til að stíga þetta skref í friðarferlinu í Mið-Austurlöndum og til að hægt sé ná varanlegum friðarsamningi í deilu Ísraelsmanna og Palestínumanna. Trump sagði að Bandaríkin myndu styðja tveggja ríkja lausn í deilunni, ef bæði Ísraelar og Palestínumenn væru henni samþykk.

Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, sagði í gær að ákvörðun sem þessi kunni að hafa „hættulegar afleiðingar“ í heimshlutanum.

Mikið hefur verið deilt um stöðu Jerúsalem alla tíð frá stofnun Ísraelsríkis árið 1948 en öll stóru trúarbrögðin þrjú á svæðinu, Íslam, gyðingdómur og kristindómur líta á hana sem heilaga borg. Hún var hernumin af Ísraelum í sex daga stríðinu 1967 og innlimuð í Ísrael 1980.

Ekkert sendiráð er nú staðsett í Jerúsalem en alls má finna 86 sendiráð erlendra ríkja í Tel Avív.

Sjá má ræðu forsetans að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×