Erlent

Repúblikanar styrkja aftur frambjóðanda sem er sakaður um kynferðisáreitni

Kjartan Kjartansson skrifar
Á meðal þess sem hefur komið fram er að Moore hafi verið á bannlista í verslunarmiðstöð í Alabama vegna þess að hann var þekktur fyrir að eltast við ungar stúlkur þar.
Á meðal þess sem hefur komið fram er að Moore hafi verið á bannlista í verslunarmiðstöð í Alabama vegna þess að hann var þekktur fyrir að eltast við ungar stúlkur þar. Vísir/AFP
Landsnefnd Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum hefur ákveðið að byrja aftur að styrkja framboð Roy Moore, frambjóðanda flokksins í Alabama, sem sakaður er um að hafa átt í kynferðislegu sambandi við unglingsstúlkur. Ákvörðun nefndarinnar kemur í kjölfar þess að Donald Trump forseti lýsti yfir stuðningi við Moore í gær.

Moore er frambjóðandi repúblikana til öldungadeildarþingsætis Albama sem kosið verður um 12. desember. Í síðasta mánuði stigu nokkrar konur fram og lýstu því hvernig Moore hefði elst við þær eða haft uppi kynferðislega tilburði þegar þær voru unglingar eða ungar konur en hann saksóknari á fertugsaldri. Ein konan var fjórtán ára þegar hún segir Moore hafa kysst sig og káfað á sér.

Síðast í gær lagði ein kvennanna fram sannanir um samband þeirra Moore þegar hún var sautján ára en hann 34 ára. Moore er nú sjötugur.

Eftir að ásakanirnar á hendur Moore komu fram dró landsnefnd repúblikana stuðning sinn við framboð hans til baka. Á þeim tíma sagði Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, að Moore ætti að draga framboðið til baka og að hann tryði konunum sem hefðu stigið fram. Var jafnvel talað um að þingmenn myndu vísa Moore úr öldungadeildinni færi svo að hann yrði kjörinn.

Forsetinn tók ákvörðunina

Undanfarið hefur þó kveðið við nokkuð annar hljómur í repúblikönum. McConnell segir nú að það sé í höndum kjósenda í Alabama hvað verður um Moore. Landsnefndin steig svo skrefið til fulls í gær eftir að Trump forseti lýsti yfir stuðningi við frambjóðandann.

Nýlegar skoðanakannanir benda til þess að Moore sé með naumt forskot á Doug Jones, frambjóðanda demókrata, eftir að Jones hafði í sumum könnnunum janfnvel mælst með forskot fyrst eftir að ásakanirnar komu fram.

Washington Post hefur eftir heimildarmönnum sínum að það hafi verið Trump sem tók ákvörðunina um að repúblikanar skyldu fylkja sér aftur að baki Moore. Ástæðan hafi meðal annars verið hagstæðari skoðanakannanir og að forsetinn hafi verið viss um að honum yrði kennt um að hluta til ef Moore tapaði fyrir Jones.


Tengdar fréttir

Trump lýsir yfir stuðningi við Moore

Fjöldi kvenna hafa á síðustu vikum sakað frambjóðanda Repúblikana til öldungadeildar Bandaríkjaþings í Alabama um að hafa áreitt þær kynferðislega á áttunda áratugnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×