Þorgils Þorgilsson, verjandi Sveins Gests Tryggvasonar, segir ljóst að dómnum yfir Sveini verði áfrýjað. Þorgils var á leiðinni úr dómssal þegar Vísir náði tali af honum. Sveinn Gestur var dæmdur í sex ára fangelsi í morgun fyrir líkamsárás sem leiddi til dauða Arnars Jóns Aspar í júní síðastliðnum.
Í kjölfar dómsuppsögunnar var Sveinn Gestur leiddur fyrir dómara þar sem krafist var gæsluvarðhalds yfir honum í tólf vikur. Er um hefðbundið ferli að ræða en tólf vikur er sá frestur sem aðilar máls hafa til að áfrýja því til æðra dómstigs. Sveinn Gestur hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 7. júní, þegar árásin átti sér stað.
Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir, saksóknari í málinu, fór fram á fjögurra til fimm ára fangelsi yfir Sveini Gesti. Niðurstaðan var sex ár en dómarinn mat til hegningarauka að Sveinn Gestur var á skilorði. Eftirstöðvar afplánunar fyrri dóms nam átta mánuðum.
Þorgils hafði ekki náð að kynna sér niðurstöður dómsins í þaula þegar fréttastofa náði tali af honum.
„Þessu verður áfrýjað,“ sagði hann. „Þetta er töluvert þyngra en menn bjuggust við.“
Hann sagðist lítið geta tjáð sig frekar um niðurstöðuna þar til síðar í dag.
Verjandi Sveins Gests: Þessu verður áfrýjað

Tengdar fréttir

Segir Jón Trausta bera ábyrgð á áverkum Arnars
Sveinn Gestur Tryggvason sem ákærður er fyrir stórfellda líkamsárás sem leiddi til dauða Arnars Jónssonar Aspar, neitar alfarið sök í málinu. Aðalmeðferð hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Krefst fjögurra til fimm ára fangelsis yfir Sveini Gesti
Ákærður fyrir stórfellda líkamsárás sem leiddi til dauða.

Sveinn Gestur í sex ára fangelsi
Fyrir líkamsárás sem varð Arnari Jóni Aspar að bana í Mosfellsdal í júní.

„Þetta átti ekki að enda svona“
Allir samferðamenn Sveins Gests segja Arnar hafa ráðist að fyrra bragði á Svein Gest.