Erlent

Annar kafli Brexit-viðræðna hefst

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Theresa May er hún gekk út af fundi leiðtogaráðsins.
Theresa May er hún gekk út af fundi leiðtogaráðsins. Nordicphotos/AFP
Leiðtogaráð Evrópusambandsins samþykkti í gær að hefja næsta stig viðræðna um útgöngu Bretlands úr ESB, svokallað Brexit. Vonast er til þess að viðræður hefjist fljótlega eftir áramót.

Í viðmiðunarreglum sambandsins segir að undir annað, og síðara, stigið falli framtíðarsamskipti Evrópusambandsins og Breta eftir Brexit. Undir fyrra stigið falli hins vegar viðræður um aðskilnaðargreiðslur Breta, réttindi breskra ríkisborgara búsettra annars staðar innan ESB og öfugt sem og landamæragæsla á landamærum Írlands og Norður-Írlands.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB.Nordicphotos/AFP
Fyrst stendur til að ræða tveggja ára aðlögunarferlið sem fylgir í kjölfar útgöngunnar sem áætluð er í mars 2019. Þær viðræður eiga að fara fram í janúar. Í mars verður svo rætt um milliríkjaviðskipti og öryggissamstarf, að því er BBC greinir frá.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, þakkaði Donald Tusk, forseta leiðtogaráðsins, og Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, kærlega fyrir í gær. „Nú hefur mikilvægt skref verið stigið í áttina að hnökralausri útgöngu ásamt því að tryggja áframhaldandi samstarf og samvinnu,“ sagði hún.

Theresa May er hún mætti til fundar í Brussel í gær.Nordicphotos/AFP
Forsætisráðherrann sagði jafnframt að viðræður um framtíðarsambandið myndu hefjast sem allra fyrst. Vonast hún eftir því að viðræðurnar gangi hratt fyrir sig til þess að útrýma óvissu.

Juncker sagði að nú þyrfti að reka smiðshöggið á samkomulagið sem náðist á fyrsta stigi viðræðna. „Annað stig viðræðna verður mun erfiðara en hið fyrsta, sem var þó ansi flókið,“ bætti hann við. Juncker­ hrósaði May jafnframt og sagði hana harðan, greindan og kurteisan samningamann. Hann væri þó sannfærður um að hægt væri að ná samningi sem bæði breska þinginu og Evrópuþinginu litist vel á. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×