Innlent

Flughálka getur myndast á vegum og gangstéttum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það er um að gera að fara varlega í hálkunni.
Það er um að gera að fara varlega í hálkunni. vísir/ernir
Veðurstofan bendir vegfarendum á að flughálka getur myndast næsta sólarhringinn þegar rigning fellur á kalda jörð eða klakabunka. Varhugaverðar aðstæður geta því myndast á vegum og gangstéttum að því er fram kemur í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Þar segir jafnframt að um vestanvert landið megi áfram búast við snörpum éljahryðjum með takmörkuðu skyggni.

 

Í kvöld mun svo hvessa af suðaustri með rigningu á láglendi og hlýnandi veðri, fyrst um suðvestanvert landið um miðnætti en svo um allt land í nótt.

Auk þess sem mikil hálka getur myndast er rétt að hafa í huga að líklega mun snjóa á fjallvegum í fyrstu með erfiðu færi og lélegu skyggni þegar rignir í nýjan snjó.

Veðurhorfur á landinu í dag og næstu daga:

Suðvestan 10-15 og snarpar éljahryðjur vestan til fram undir hádegi annars yfirleitt hægari og úrkomulítið. Hiti í kringum frostmark. Dregur úr vindi og éljum eftir hádegi. Gengur í hlýnandi suðaustanátt, 10-18 með rigningu en slyddu eða snjókomu til fjalla um miðnætti, fyrst SV-til. Lægir í fyrramálið og dregur úr úrkomu en snýst aftur í suðvestan 5-13 fyrir hádegi. Þurrt að kalla í fyrstu og léttir til austan til en skúrir og síðar él vestan til þegar líður á daginn.

Á föstudag:

Sunnan og suðaustan 13-18 m/s og rigning víðast hvar og talsverð um landið sunnanvert. Snýst í suðvestan 5-13 síðdegis með slyddu- og síðan snjóéljum, en rofar til um landið austanvert. Hiti 2 til 7 stig en kólnar niður undir frostmark um kvöldið.

Á laugardag (Þorláksmessa):

Suðvestan 5-10 m/s með éljum vestantil, en úrkomulítið um landið austanvert. Hiti víða í kringum frostmark. Snýst í vaxandi austanátt með norðurströndinni um kvöldið með snjókomu eða éljum og kólnandi veðri.

Á sunnudag (aðfangadagur jóla):

Norðaustan 10-15 NV-til, annars 5-13 m/s. Snjókoma norðan og austan til, annars él, en úrkomulítið suðvestanlands síðdegis. Frost 0 til 5 stig, en fer kólnandi með kvöldinu.

Á mánudag (jóladagur):

Norðaustan 8-15 m/s með éljum, en úrkomulítið suðvestanlands. Kalt í veðri.

Á þriðjudag (annar í jólum) og miðvikudag:

Norðan og norðaustan 8-15 m/s. Él víða norðan og austantil en bjartviðri sunnan jökla. Frost 2 til 12 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×