Fótbolti

Töluverður fjöldi indónesískra miðla elta íslensku strákana út um allt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Ingi Skúlason spjallaði við fjölmiðla við Prambanan hofið í Yogyakarta.
Ólafur Ingi Skúlason spjallaði við fjölmiðla við Prambanan hofið í Yogyakarta. Mynd/Fésbókarsíða KSÍ
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er mætt út til Indónesíu þar sem liðið mætir heimamönnum í tveimur vináttuleikjum á næstu dögum.

Heimir Hallgrímsson gat ekki mætt með sitt sterkasta lið í þessa keppnisferð til Asíu og margir leikmenn fá því tækifæri til að sýna sig og sanna í leikjunum.

Fyrri leikurinn verður í borginni Yogyakarta fimmtudaginn 11. janúar og sá síðari í Jakarta sunnudaginn 14. janúar.

KSÍ segir frá því á heimasíðu sinni að íslensku strákarnir hafi komið til Yogyakarta í gær eftir langt og strangt ferðalag. Létt æfing var tekin á hótelsvæðinu í dag og síðan var haldið í stutta skoðunarferð í Hindúa hofið Prambanan en það var byggt á níundu öld.

Áhugi fjölmiðla á íslensku leikmönnunum er mikill og fylgir töluverður fjöldi indónesískra miðla liðinu eftir hvert fótmál eins og kemur fram á heimasíðu KSÍ.

Næstu tveir dagar fara í að safna orku eftir ferðalagið en tímamismunur á milli Indónesíu og Íslands eru sjö klukkutímar.

Það er því er lögð mikil áhersla á að leikmenn hvílist vel það sem eftir lifir dags en á morgun verður haldið á æfingasvæðið þar sem byrjað verður að fara yfir leikskipulagið sem lagt verður upp með í leikjunum tveimur,“ segir í frétt á heimasíðu KSÍ.



 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×