Erlent

Níundi maðurinn sem steig fæti á tunglið látinn

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
John Young og Robert Crippen í geimskutlunni Columbia árið 1981.
John Young og Robert Crippen í geimskutlunni Columbia árið 1981.
Geimfarinn John Young lést í gærkvöld, 87 ára að aldri, en banamein hans var lungabólga. Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA) greindi frá þessu í dag.

„Í dag hefur NASA og heimurinn allur misst frumkvöðul,“ segir í yfirlýsingu NASA.

Ferill Youngs spannaði 42 ár en enginn annar geimfari hefur starfað svo lengi í þjónustu NASA. Young er eini maðurinn sem hefur stýrt fjórum mismunandi geimförum og enginn maður hefur farið jafnmargar geimferðir og hann, en þær eru sex talsins.

Young var níundi maðurinn til þess að stíga fæti á tunglið en hann var leiðangursstjóri Apollo 16-leiðangursins sem farinn var 1972. Young hafði ferðast til tunglsins þremur árum áður með Apollo 10-leiðangrinum, sem var önnur tunglferðin frá upphafi. Geimfarið komst á braut um tunglið en lenti ekki.  

Young fæddist í San Francisco árið 1930 en þegar hann var barn fluttist fjölskylda hans búferlaflutningum til Orlando í Flórída-ríki. Young lauk B.S. gráðu í geimverkfræði frá Tækniháskólanum í Georgíu árið 1952 en þaðan lá leið hans í sjóherinn. Í hernum hlaut Young þjálfun í flugi og þyrluflugi. Flughæfni Youngs er sögð hafa verið hreint ótrúleg en hann setti hraðamet í „klifri“ þegar hann flaug Phantom II vél sinni þrjá kílómetra upp í loft frá jörðu á aðeins 34,523 sekúndum.

Árið 1962 gekk Young til liðs við NASA.

„John Young var í fremstu víglínu þegar kom að geimrannsóknum, gæddur yfirvegun, hæfileikum og seiglu. Hann var á allan hátt „geimfari geimfaranna“ og við munum sakna hans,“ segir í yfirlýsingu NASA.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×