Innlent

Réðust á dyraverði í miðborginni

Atli Ísleifsson skrifar
Lögreglan hafði nóg að gera í gærkvöldi og í nótt.
Lögreglan hafði nóg að gera í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Eyþór
Ráðist var á tvo dyraverði í miðborg Reykjavíkur í nótt. Skömmu eftir miðnætti var lögreglu tilkynnt að dyraverðir á skemmtistað væru með mann í tökum eftir að sá veittist að þeim. Í dagbók lögreglu segir að maðurinn hafi verið mjög ölvaður og ekkert hægt að ræða við hann. Hann neitaði að svara hvar hann ætti heima og var hann því vistaður í fangageymslu.

Um 1:30 var dyravörður á skemmtistað í miðborginni sleginn í andlitið og sparkað í hann þannig að lítillega blæddi úr andliti. Í dagbók lögreglu segir að árásarmennirnir hafi verið farnir af vettvangi þegar lögreglu bar að garði og er málið í rannsókn.

Klukkan korter í eitt var tilkynnt um líkamsárás í heimahúsi í Vesturbæ Reykjavíkur. Þar var karlmaður handtekinn og hann vistaður í fangageymslu. Árásarþoli ku ekki vera alvarlega meiddur.

Skömmu fyrir miðnætti var tilkynnt um eld í ruslagámi í austurbænum. Slökkvilið kom á vettvang og slökkti eldinn.

Lögregla handtók mann um þrjúleytið eftir að hann hafði verið að áreita fólk. Dyraverðir héldu manninum niðri þegar lögregla kom á staðinn og brást maðurinn illa við afskiptum hennar svo setja þurfti manninn í handjárn og flytja á lögreglustöð. Hann var vistaður í fangageymslu.

Á sjötta tímanum var karlmaður handtekinn fyrir að kasta af sér vatni á húsnæði Héraðsdóms Reykjavíkur. Hann var fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem málið var afgreitt og viðkomandi var síðan látinn laus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×