Enski boltinn

Arsenal sagt í viðræðum um kaup á Aubameyang frá Dortmund

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pierre-Emerick Aubameyang fagnar marki með Dortmund.
Pierre-Emerick Aubameyang fagnar marki með Dortmund. Vísir/Getty
Ensku blöðin Mirror og Daily Mail slá því bæði upp í morgun að Arsenal hafi mikinn áhuga á Pierre-Emerick Aubameyang, framherja Dortmund, og sé komið í viðræður við þýska félagið.

Arsenal er að missa Sílemanninn Alexis Sanchez í þessum félagsskiptaglugga og þarf nauðsynlega á liðstyrk að halda í framlínuna. Arsenal gæti þurft að borga 53 milljónir punda fyrir leikmanninn.  

Dýrasti leikmaður Arsenal í dag er franski framherjinn Alexandre Lacazette sem félagið keypti á 52 milljónir punda síðasta sumar.

Pierre-Emerick Aubameyang hefur spilað frábærlega með liði Borussia Dortmund en það hefur verið vandræði á honum á þessu tímabili og leikmaðurinn vill augljóstlega losna frá Þýskalandi.

Aubameyang var ekki í hópnum hjá Dortmund um helgina en hann hefur skorað 13 mörk í 15 leikjum í þýsku deildinni á tímabilinu auk þess að skora 4 mörk í 6 leikjum í Meistaradeildinni.

Dortmund hafði betur í kapphlaupinu við Arsenal þegar Aubameyang kom til þýska liðsins árið 2013 og þar átti einn Sven Mislintat mikinn þátt í því að Gabon maðurinn valdi Dortmund.

Arsenal er nýbúið að ráða Sven Mislintat til starfa hjá sér og það þykir ýta undir líkurnar á því að liðið fái til sín Pierre-Emerick Aubameyang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×