Fótbolti

Hver er íslenski landsliðsmaðurinn Mikael Neville Anderson?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikael Neville Anderson.
Mikael Neville Anderson. Mynd/KSÍ
Mikael Neville Anderson spilar í dag sinn fyrsta A-landsleik fyrir Ísland þegar liðið mætir Indónesíu í vináttulandsleik á Mandala Krida vellinum í Yogyakarta.

Heimir Hallgrímsson setur hann inn í byrjunarliðið í fyrsta leik en Mikael Neville er út á hægri væng samkvæmt uppstillingu á heimasíðu KSÍ.

En hver er þessi nýjasti landsliðsmaður Íslands í fótbolta?

Mikael Neville Anderson er fæddur 1. júlí 1998 og er því ekki orðinn tvítugur. Hann á íslenska móður en faðir hans er frá Jamaíka.

Hann fæddist á Íslandi en hefur búið í Danmörku frá ellefu ára aldri. Mikael Neville er með tvöfalt ríkisfang og gat því valið á milli þess að spila fyrir Danmörk og fyrir Ísland.

Mikael Neville spilaði með yngri landsliðum Íslands og Danmörku en ákvað síðan að velja Ísland árið 2017.   

„Þeir voru ekki ánægðir með það. Þeir vissu samt að ég vildi spila fyrir Ísland því ég fjölskyldu frá Íslandi. Þetta var erfitt val en ég valdi Ísland af því að fjölskyldan er héðan,“ sagði Mikael Neville í viðtali við fótbolta.net á sínum tíma.  

Þetta verður sjötti leikur hans fyrir íslenskt landslið en hann á að baki tvo leiki með 21 árs landsliðinu (árið 2017) og þrjá leiki með 17 ára landsliðinu (árið 2014).

Mikael Neville er leikamaður FC Midtjylland en 31. ágúst fór hann á láni til b-deildarliðsins Vendsyssel FF. Mikael Neville hefur skorað 3 mörk í 10 deildarleikjum með Vendsyssel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×