Fótbolti

Góðkunningjar íslenska fótboltalandsliðsins mega ekki selja miða á Englandsleikinn sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það var tómlegt í stúkunni á leik Ísland og Króatíu í nóvember 2016.
Það var tómlegt í stúkunni á leik Ísland og Króatíu í nóvember 2016. Vísir/Getty
Knattspyrnusamband Evrópu hefur tekið þá ákvörðun að leikur Króata og Englendinga í Þjóðadeildinni næsta haust fari fram fyrir luktum dyrum.

Enska landsliðið kemur í heimsókn 12. október næstkomandi en refsingin er frá því að stuðningsmenn Króatar máluðu hakakross á völlinn fyrir leik á móti Ítalíu í undankeppni EM 2016.

Krótar fengu þá tveggja leikja heimaleikjabann og króatíska knattspyrnusambandið þurfti að borga hundrað þúsund evrur í sekt.





Króatíska liðið var í riðli með Íslandi í undankeppni HM 2018 og er líka í riðli með Íslandi í úrslitakeppni HM í Rússlandi í sumar. Liðin mætast í lokaleik riðilsins.

Króatar máttu ekki hafa áhorfendur á leiknum við Ísland í undankeppni HM í nóvember 2016 vegna refsingar frá UEFA. Króatíska liðið vann þann leik 2-0 en tapaði síðan 1-0 fyrir íslensku strákunum fyrir framan troðfullan Laugardalsvöll sex mánuðum síðar.

Króatar og Englendingar eru í riðli með Spáni í Þjóðadeildinni en Króatar mega selja inn á leikinn á móti Spáni 15. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×