Lífið

Grét stanslaust í fangelsi í Brasilíu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Saga Birgittu var sögð í þættnum Burðardýr á Stöð 2 í gærkvöldi.
Saga Birgittu var sögð í þættnum Burðardýr á Stöð 2 í gærkvöldi.

„Svo kemur hann inn á hótelherbergi með tvær stórar ferðatöskur og ég horfi á hann og spyr hvað þetta sé,“ segir Birgitta Gyða Estherardóttur Bjarnadóttur í þættinum Burðardýr sem var á dagskrá Stöðvar 2 í gærkvöldi. Hún hlaut fimm ára fangelsisdóm fyrir fíkniefnasmygl í Brasilíu árið 2015.

Birgitta var handtekin í Fortaleza ásamt kærasta sínum Hlyni Kristni Rúnarssyni en parið var handtekið eftir að ábending barst um ætlað smygl þeirra og í kjölfarið fundust í fórum þeirra um fjögur kíló af kókaíni. Efnin voru falin í smokkum og fölskum botnum á þremur ferðatöskum.

Fylgst var með því þegar móðir Birgittu ferðist til Brasilíu til að styðja hana í tengslum við upptöku á þættinum sjálfum. Birgitta segist alltaf hafa haldið að hún yrði ekkert tengd smyglinu sjálfu og hafi aðeins átt að koma með út til Brasilíu. Það hafi ekki staðist.

„Ég vissi ekkert að þetta yrði svona og vildi alls ekki labba með þessar töskur í gegnum flugvöllinn. Hann [Hlynur Kristinn Rúnarsson] sagði að þetta væri það gert að þetta myndi alltaf komast í gegnum flugvöllinn og alveg skothelt plan.“

Birgitta segir að þau hafi átt flug heim kvöldið 26.desember 2015. Ein taska hafi dottið á gólfið og brotnað.

Hættu við

„Við þurfum þá að taka öll efnin út úr þeirri tösku og troða í smokka sem voru á hótelinu. Þarna var ég algjörlega farinn að panika, grét og öskraði inni á herberginu. Við ætlum bara að hætta við þetta allt saman og förum upp á flugvöll til að breyta fluginu. Í öllum þessum æsingi gleymum við brotnu töskunni á herberginu og brunum upp á flugvöll,“ segir Birgitta.

Parið missti af fluginu og var ekki hægt að breyta ferðaáætlun þeirra. Í kjölfarið fóru þau upp á annað hótel en aðeins liðu um tíu mínútur eftir að þau hefði innritað sig þar inn, þangað til að lögreglan sparkar upp hurðinni og þau voru handtekin með fjögur kíló af kókaíni.

„Ég grét bara, svaf og svaf og vissi ekkert hvernig tímanum leið. Ég vissi bara hvaða dagur var þegar ég heyrði í öllum flugeldinum á gamlárskvöld,“ segir Birgitta en hér að neðan má sjá brot úr þætti gærkvöldsins.

Birgitta sat inni í eitt ár og 25 daga. Eftir að henni var sleppt þurfti hún að bíða eftir vegabréfi sínu í 11 mánuði og 28 daga. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×