Viðskipti innlent

Hydro gerir kauptilboð í álverið í Straumsvík

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. Vísir/Vilhelm
Norski álframleiðandinn Norsk Hydro ASA hefur gert skuldbindandi tilboð um kaup á öllu útgefnu hlutafé í álverksmiðjunni ISAL af Rio Tinto. Tilboðið nær einnig til hollensku skautverksmiðjunnar Aluchemie og sænsku ál-flúoríð verksmiðjunnar Alufluor. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hydro.

„Tilboðið endurspeglar sterka trú okkar á áli, sem er sá málmur sem er í hvað sterkastri sókn á heimsvísu. Að taka þátt á öllum stigum virðiskeðjunnar er lykilatriði í að skapa verðmæti í þessari sókn og ýta undir sjálfbærar aðferðir í rekstri okkar á heimsvísu“ er haft eftir Svein Richard Brandtzæg, forstjóra Hydro.

Hydro gerir ráð fyrir samlegðaráhrifum að því er varðar tækniframþróun, hámarksnýtingu á skautasafni, flutningum og meðhöndlun. Verksmiðja ISAL nýtir sömu tækni og verksmiðja Hydro í Husnes í Noregi, þar sem Hydro tilkynnti fyrir skömmu um enduropnun og tækniuppfærslu á annarri rafgreiningarlínu þeirrar verksmiðju. 

„Við sjáum mikla mögulega í því að samnýta hæfni og tækni í álverksmiðjum okkar. Við rekum nú tilraunaverksmiðju í Noregi sem stefnir á að verða sú álframleiðsla í heiminum sem nýtir orkuna best og hefur minnst áhrif á loftslagið. Þessi nýsköpun mun dreifast til annarra verksmiðja Hydro og ISAL mun, sem hluti af samsteypu Hydro, njóta góðs af slíkri tækni og þekkingu“ er haft eftir Hilde Merete Aasheim, yfirmanni hrámálmaviðskiptasviðs Hydro.

Alls 345 milljónir Bandaríkjadala

ISAL framleiðir um það bil 210.000 tonn af fljótandi hrááli á ári og samtals 230.000 mt af þrýstimótunar hleifum.

Norsk Hydro er álfyrirtæki með 35.000 starfsmenn í 40 löndum í öllum heimsálfum og með aðsetur í Noregi. 

Um er að ræða skuldbindandi tilboð um að kaupa álverksmiðju Rio Tinto, Rio Tinto á Íslandi hf., 53% hlut Rio Tinto í hollensku skautverksmiðjunni Aluminium & Chemie Rotterdam B.V., og 50% hlut í sænsku álflúoríð verksmiðjunni Alufluor AB fyrir 345 milljónir Bandaríkjadali, með fyrirvara um aðlögun kaupverðs eftir lúkningu viðskiptanna.

Í samræmi við ákvæði hollenskra og franskra laga virkjar tilboð Hydro lögboðið samráðsferli við starfsmenn Rio Tinto og aðra hagsmunaaðila. Að því gefnu að samráðsferli verði árangursríkt, og samþykki samkeppnisyfirvalda Evrópusambandsins fáist, er gert ráð fyrir að viðskiptunum verði lokið á öðrum ársfjórðungi 2018. Við það verða ISAL, Aluchemie og Alufluor hluti af starfsemi Hydro á heimsvísu.


Tengdar fréttir

Ræða við mögulega kaupendur um álverið í Straumsvík

Rio Tinto, móðurfélag Rio Tinto á Íslandi, á í viðræðum um sölu álversins við nokkra mögulega kaupendur í kjölfar heimsókna þeirra í Straumsvík. Hvar þær viðræður standa geta stjórnendur álversins ekki sagt til um né hverjir hafa sýnt fyrirtækinu áhuga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×