Innlent

Bjarni sagði að búið væri að stórbæta kjör Íslendinga á síðustu árum

Birgir Olgeirsson skrifar
Bjarni Benediktsson í Víglínunni fyrr í dag.
Bjarni Benediktsson í Víglínunni fyrr í dag.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í Víglínunni fyrr í dag að hann væri sammála Samtökum atvinnulífsins þegar kemur að umræðu um kjarasamninga. Alþýðusamband Íslands hefur sagt forsendubrest  hafa orðið á kjarasamningum og að heimild til uppsagnar á þeim fyrir lok febrúar sé enn í gildi.

Samtök atvinnulífsins hafa bent á að kaupmáttur lægstu launa hefur aukist um 25 prósent á samningstímanum og lágmarkslaun verði þrjú hundruð þúsund í maí verði samningarnir látnir standa.

Bjarni Benediktsson benti á að á síðustu árum hafi tekist að stórbæta kjör hjá öllum Íslendingum og þar vísaði hann til kaupmáttaraukningar. Bjarni sagði ekki víst að það muni nást jafn mikil kaupmáttaraukning á næstu árum og á síðustu fjórum til fimm árum. 

Bjarni sagði ríkisstjórnina hafa átt samtöl við aðila vinnumarkaðarins undanfarnar vikur með það að markmiði að skilja betur hvaða kröfur eru uppi og með þeirri von að hægt sé að finna sameiginlegan flöt þannig að hægt sé að ganga samstíga fram veginn og vinna að stöðugleika. Nefndi Bjarni þar sérstaklega að mikilvægt sé að halda verðbólgu niðri og auka kaupmátt. Sagði hann alla finna það hversu miklu máli það skiptir að verðlag sé ekki alltaf hækkandi.

Bjarni sagði að mörg teikn væru á lofti um að andrúmsloftið á vinnumarkaði væri að róast og nefndi sem dæmi nokkra samninga sem náðst hafa við nokkrar stéttir að undanförnu, þar á meðal lækna og flugmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×