Golf

Ólafía jafnaði besta hring mótsins │ Valdís Þóra í þriðja sæti

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Íslandsmeistarinn 2017 hefur byrjað árið frábærlega
Íslandsmeistarinn 2017 hefur byrjað árið frábærlega mynd/let
Valdís Þóra Jónsdóttir hélt áfram frábærri spilamennsku sinni í Ástralíu á þriðja hringnum á Ladies Classic Bonville mótinu í nótt.

Skagakonan spilaði hringinn á pari vallarins, 72 höggum, og er samtals á fimm höggum undir pari. Hún fékk einn fugl og tvo skolla á fyrri níu holunum en seinni níu voru mjög skrautlegar þar sem hún fékk þrjá fugla og tvo skolla.

Spilamennskan skilaði Valdísi í 3. - 6. sæti, en fjórir kylfingar eru jafnir á fimm höggum undir pari. Aðeins eitt högg er í hina ensku Holly Clyburn sem er í öðru sæti en Frakkinn Celine Boutier er efst á ellefu höggum undir pari og ætti að vera nokkuð örugg með sigurinn nema eitthvað stórkostlegt gerist á lokahringnum.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir átti stórkostlegan hring í nótt þar sem hún lék á fimm höggum undir pari.

Hún fékk örn á sjöundu holu eftir að hafa fengið skolla á sjöttu og fugl á þeirri fjórðu. Hún fékk svo fjóra fugla á seinni níu holunum en einn skolla.

Ljóst er að Íþróttamaður ársins 2017 væri að berjast á toppnum, ef ekki bara í toppsætinu, ef hún hefði ekki átt hrikalegan fyrsta hring. Hún er eins og er í 20.-23. sætinu á einu höggi yfir pari, en ef hún spilar lokahringinn eins og hringinn í dag þá gæti hún blandað sér í toppbaráttuna.

Það spilaði enginn kylfingur betur en Ólafía í nótt, aðeins sú franska Boutier var á sama skori og Ólafía, 67 höggum. Clyburn náði einnig sama skori á fyrsta hringnum sínum en enginn hefur farið betri hring á öllum þremur keppnisdögum mótsins.

Lokahringurinn verður spilaður næstu nótt og hefst útsending frá mótinu klukkan 02:00 á Golfstöðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×