Innlent

Guðmundur Andri segir samræmd próf skapa ævintýraleg leiðindi hjá nemendum

Heimir Már Pétursson skrifar
Menntamálaráðherra hefur boðað alla helstu hagsmunaaðila á sinn fund í næstu viku vegna þeirra mistaka sem urðu við framkvæmd samræmds prófs í íslensku í grunnskólum landsins í gær. Ráðherra segir rauð ljós loga víða í menntakerfinu.

Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingarinnar gerði mistök sem urðu við framkvæmd samræmds prófs í íslensku í grunnskólum landsins í gær að umtalsefni í fyrirspurn til menntamálaráðherra á Alþingi í dag. En hann vitnaði einnig til gagnrýni Eiríks Rögnvaldssonar prófessors á sjálfum samræmdi prófunum í íslensku. Þau mældu illa raunverulega þekkingu á íslensku máli, leiddu nemendur í gildrur auk þess sem villur hafi reynst vera í prófinu.

„Íslenskunám nemenda grunnskóla fer mikið í að búa sig undir þessi próf með tilheyrandi ævintýralegum leiðindum og jafnvel áralangri andúð á íslenskri tungu og íslenskum bókmenntum,“ sagði Guðmundur Andri.

Þingmaðurinn spurði menntamálaráðherra hvað þessi samræmdu próf ættu að mæla og hvort þau hefðu bætt skólastarfið.

Í morgun sendi menntamálaráðuneytið frá sér yfirlýsingu þar sem mistökin við próftökuna í gær voru hörmuð. Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra segist hafa fundað með forstjóra Menntamálastofnunar í gær vegna málsins.

„Í kjölfarið hef ég ákveðið að boða alla hagsmunaaðila á fund minn næst komandi miðvikudag. Til að fara yfir þessa stöðu og taka ákvörðun um hvað verður gert vegna þessarar stöðu sem er komin upp,“ sagði Lilja. Hagsmunir nemenda verði hafðir að leiðarljósi í því mati.

Hins vegar telur Lilja ekki komið að því að ákveða um framtíð samræmdu prófanna almennt sem þurfi að undirbúa vel.

„Ég tel að það sé mjög brýnt að skoða þessi mál og athuga hvað á við í dag og hvað á ekki við. Við stöndum á ákveðnum tímamótum í menntamálum þjóðarinnar. Við erum á rauðu ljósi mjög víða,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×