Erlent

Trump sagður ætla að reka þjóðaröryggisráðgjafann sinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
H.R. McMaster ræðir hér við Donald Trump í upphafi síðasta árs, skömmu eftir að hann tók við embætti.
H.R. McMaster ræðir hér við Donald Trump í upphafi síðasta árs, skömmu eftir að hann tók við embætti. VISIR/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að reka þjóðaröryggisráðgjafa sinn, ef marka má fimm heimildarmenn Washington Post.

Ekki er búist við því að þjóðaröryggisráðgjafinn, hershöfðinginn H.R. McMaster, verði látinn fjúka strax, heldur ætlar Trump að finna eftirmann fyrst að því er staðhæft er í blaðinu.

Aðeins eru nokkrir dagar liðnir síðan utanríkisráðherrann Rex Tillersson var látinn taka pokann sinn og verði McMaster einnig rekinn bætist hann í stóran hópa starfsmanna Hvíta hússins sem hafa látið af störfum undanfarna mánuði.

Heimildarmenn blaðsins segja að nokkrir komi til greina sem eftirmenn McMasters, þar á meðal John Bolton fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Trump og McMasters hafa aldrei náð vel saman og samkvæmt blaðinu finnst forsetanum hershöfðinginn vera of stífur og þá haldi hann of langa fundi þegar hann er að gera forsetanum grein fyrir stöðu heimsmálanna.

McMasters er annar þjóðaröryggisráðgjafi Trumps forseta, en hann tók við starfinu af Mike Flynn, sem var látinn fara vegna tengsla sinna við sendiherra Rússa í Bandaríkjunum og fyrir að ljúga að varaforsetanum um þau tengsl.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×