Erlent

Bandaríkjaforseti stærir sig af því að hafa „skáldað“ upplýsingar við Trudeau

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump kom við á fjáröflunarviðburði í Missouri í gær og gagnrýndi þar helstu bandalagsþjóðir Bandaríkjamanna harðlega.
Trump kom við á fjáröflunarviðburði í Missouri í gær og gagnrýndi þar helstu bandalagsþjóðir Bandaríkjamanna harðlega. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti montaði sig af því að hafa „búið til“ fullyrðingar um meintan viðskiptahalla Bandaríkjanna við Kanada á fundi með Justin Trudeau, forsætisráðherra nágrannalandsins, á fjáröflunarviðburði í Missouri í gær.

Washington Post segir að Trump hafi í ræðu stært sig af því að hafa fullyrt við Trudeau að það hallaði á Bandaríkin í vöruskiptum við Kanada án þess að hann hefði í raun hugmynd um hvort að það væri rétt. Hann hafi einnig hermt eftir Trudeau.

Í frásögn Trump hafi Trudeau staðið fastur á því að enginn vöruskiptahalli væri til staðar fyrir Bandaríkin á fundinum.

„Ég sagði: „Rangt, Justin, þið hafið hann“. Ég vissi það ekki einu sinni...ég hafði enga hugmynd. Ég sagði bara: „Þú hefur rangt fyrir þér“. Vitið þið af hverju? Vegna þess að við erum svo heimsk...og ég hélt að þeir væru snjallir,“ heyrist Trump segja á upptöku sem blaðið hefur undir höndum.

Trump lét þó ekki staðar numið þar. Þannig fullyrti hann í ræðunni í gær að hann hefði sent aðstoðarmann sinn út af fundinum með Trudeau til að komast að raun um hvort að vöruskiptahallinn væri raunverulegur eða ekki. Í ljós hafi komið að hann sjálfur hefði haft á réttu að standa.

„„Jæja, herra, þú hefur reyndar rétt fyrir þér. Við erum ekki með neinn vöruskiptahalla en það nær ekki til orku og timburs. Þegar þú tekur það með töpum við 17 milljörðum dollara á ári.“ Þetta er ótrúlegt,“ sagði Trump við fjárhagslega stuðningsmenn sína.

Yfirlýsingar Trump stangast hins vegar á við gögn hans eigin ríkisstjórnar. Þannig segir skrifstofa viðskiptafulltrúa Bandaríkjanna að afgangur sé af viðskiptum við Kanada. Kanadíski blaðamaðurinn Daniel Dale frá Toronto Star bendir ennfremur á að þegar aðeins sé litið til viðskipta með vörur hafi hallað á Bandaríkin um 17 milljarða dollara í fyrra. Afgangur sé hins vegar af viðskiptunum fyrir Bandaríkin þegar þjónusta er tekin með í reikninginn.

Bölsótaðist út í meint „keilukúlupróf“ Japana

Í ræðunni gagnrýndi Trump nokkrar helstu bandalagsþjóðir Bandaríkjamanna harðlega og sakaði þær um að hafa notfært sér Bandaríkin í áraraðir. Virtist hann hóta því að draga herlið Bandaríkjanna frá Suður-Kóreu ef stjórnvöld þar fallast ekki á breytingar á viðskiptasambandi landanna.

„Bandamenn okkar hugsa um sjálfa sig. Þeim er alveg sama um okkur,“ staðhæfði Trump.

Þá sakaði Trump Japani um að beita bellibrögðum til að koma í veg fyrir aðgang bandarískra bílaframleiðenda að markaðinum. Bölsótaðist hann á torræðan hátt út í þessar meintu aðferðir Japana.

„Þetta er keilukúluprófið. Þeir fara með keilukúlu upp í sex metra hæð og láta hana detta ofan á húdd bílsins. Ef það kemur beygla í húddið, þá uppfylla þeir ekki skilyrði. Þetta er hræðilegt,“ sagði Trump.

Washington Post segir ekki ljóst um hvað forsetinn var að tala.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×