Tíska og hönnun

Endurtekning er þemað í níundu útgáfu af Mænu

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Hópurinn úr Listaháskólanum skoðar pappír fyrir tímaritið Mænu hjá Gunnari Eggertssyni hf. Mæna er gefin út í 400 eintökum.
Hópurinn úr Listaháskólanum skoðar pappír fyrir tímaritið Mænu hjá Gunnari Eggertssyni hf. Mæna er gefin út í 400 eintökum.
Mæna, tímarit um hönnun, er gefið út árlega af hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Í ár kemur Mæna út í níunda skiptið. Í tímaritinu má finna greinar um grafíska hönnun, arkitektúr, fatahönnun og vöruhönnun, en Mæna er algjörlega hönnuð af nemum í grafískri hönnun á þriðja ári.

„Þetta eru í rauninni fræðilegar greinar um hönnun, allt frá umfjöllun um lokaverkefni nemenda og síðan fræðilegar greinar byggðar á áhugaverðum pælingum sem koma upp út frá lokaverkefnunum,“ segir Sverrir Örn Pálsson en hann er einn af hönnunarteymi Mænu.

Ritstjórar Mænu koma úr hópi kennara deildarinnar og í ár eru það þau Arnar Freyr Guðmundsson, Johanna Siebein, Jónas Valtýsson og Birna Geirfinnsdóttir. Þetta er annað árið sem tímaritið er tvítyngt – kemur bæði út á ensku og íslensku, enda er Mæna líka að einhverju leyti hugsuð sem kynningarefni fyrir Listaháskólann.

„Síðustu ár hefur verið eitt þema sem hönnunin byggist á og þemað í ár er endurtekning. Greinarnar tengjast þemanu mismikið en snerta á því á einn eða annan hátt. Konseptið og layoutið byggir samt mikið á endurtekningu.“

Í kvöld verður útgáfuhóf vegna útgáfu Mænu og fer það fram í Hafnarhúsinu og er hluti af HönnunarMars í tengslum við samsýningu FÍT, Félag íslenskra teiknara, en hófið er haldið í sama rými og sú sýning. Leikar hefjast klukkan 17.30 og stendur sýningin fram á sunnudag. Mæna kemur út í um það bil 400 eintökum og verður hægt að nálgast tímaritið á meðan upplag endist.

Einnig má nálgast Mænu á vefsíðunni mæna.is.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×