Körfubolti

Sverrir: Þurfum að vinna vinnuna okkar til að afreka eitthvað

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur í Dominos-deild kvenna, segir að hann hafi tröllatrú á sínum stelpum að geta farið alla leið. Hann segir Val verðugan andstæðing og að hans stelpur þurfa að eiga góða leiki til að komast í úrslit.

„Af þessum fjórum liðum þá er enginn andstæðingur sem maður hefði óskað sér því þetta eru allt hörkulið. Við pælum ekki í neinu öðru en einvíginu gegn Val. Við þurfum að mæta tilbúnar og gera hlutina af krafti til að fara í gegnum þær,” sagði Sverrir við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum.

Það er svipað uppi á teningnum hjá Keflavík annað árið í röð. Í fyrra eins og nú missti liðið af deildarmeistaranum en þá vann liðið Íslandsmeistaratitilinn að lokum.

„Núna riðlaðist þetta hjá okkur með að missa tvær í meiðsli og aðrar komu í aðeins stærri hlutverk. Við erum með flottan hóp og svo fengum við Emblu inn í vetur. Við erum með flottan hóp. Ég tel okkur eiga góðan séns að komast í úrslitin en við erum að spila við lið sem er mjög svipað okkur í getu.”

„Þetta eru mjög jöfn lið en ég hef fulla trú á þessum hóp. Við þurfum svo að vinna vinnuna okkar þegar komið er út í þessa leik til að afreka eitthvað.”

Allt innslagið má sjá í heild sinni í sjónvarpsglugganum efst í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×