Fuglarnir komu til Íslands frá Hollandi fyrir um einum og hálfum mánuði og hafa síðan verið í sóttkví í Dýraríkinu í Holtagörðum. Eigandi sem tók við versluninni fyrir um einu ári segir þetta í fyrsta skipti í langan tíma sem svona stór hópur af fuglum er fluttur til landsins.

„Svo kalla þeir okkur á fund á miðvikudaginn fyrir tæpum hálfum mánuði síðan og tilkynna okkur að til standi að hafna innflutningi á þessum dýrum þar sem þessi maur hafi aldrei fundist á dýrum hér á landi áður," segir Þórarinn Þór, eigandi Dýraríkisins.
Eigendur ráðfærðu sig við dýralækna og sérfræðinga og komust að því að til eru tvenns konar lyf hér á landi sem eiga að útrýma sníkjudýrinu og hafa þeir boðið dýralæknum Matvælastofnunar að fylgjast með ferlinu.
„Okkur finnst að í svona afmörkuðu rými eins og sóttkví eigi að vera tiltölulega einfalt að meðhöndla þetta," segir Þórarinn.
Matvælastofnun féllst ekki á meðferðaráætlun Dýraríkisins og hefur farið fram á að fuglunum verði annað hvort komið úr landi eða aflífaðir fyrir 4. apríl. Eigandi segir ekki hægt að flytja þá héðan og telur óásættanlegt að þurfa að aflífa 358 fugla sem hægt væri að meðhöndla.

Eigendur Dýraríkisins ætla að kæra ákvörðunina til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og telja að heimild Matvælastofunar til þess að krefjast förgunar eigi aðeins við um alvarlega smitsjúkdóma en ekki ytri sníkjudýr. Þá brjóti ákvörðunin gegn sjónarmiðum um meðalhóf.
„Þeir hafa bara engan lagalegan rétt til þess að fara fram á þetta og maður bara skilur ekki af hverju þeir leyfa okkur ekki að meðhöndla þá," segir Þórarinn.