Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir í samtali við Vísi að maðurinn hafi verið handtekinn vegna grunsamlegs háttalags á staðnum í morgun.
Mikill eldur kom upp í rúmlega fimm þúsund fermetra atvinnuhúsnæði í Garðabæ í morgun og urðu sjónarvottar varir við sprengingar. Í húsnæðinu voru um tvö hundruð geymslurými á vegum Geymslna ehf. lager og verslun Icewear og hluti starfsemi Marels.
Sjá einnig: Gríðarlegt tjón eftir stórbruna í Garðabæ
Mikið álag var á viðbragðsaðilum vegna mannfjölda á vettvangi þar sem margir fylgdu ekki aðvörunum og töldu nauðsynlegt að berja reykinn augum.
Þetta kemur fram í færslu á Facebooksíðu lögreglunnar.
Þar segir að að um 25 lögregluþjónar hafi komið að brunanum í dag og allir tiltækir lögregluþjónar sinntu lokunum og öðrum verkefnum sem tengdust honum.
Lögreglan segir slökkvistarfi ekki lokið að fullu og verða lögregluþjónar og slökkviliðsmenn á vakt í nótt þar sem eldur getur komið upp aftur. Ekkert er hægt að segja til um upptök eldsins og stendur rannsókn yfir.
Uppfært 20:20 með upplýsingum um af hverju maðurinn hafi verið handtekinn