Erlent

Kínversk geimstöð hrapar til jarðar

Kjartan Kjartansson skrifar
Tiangong-1 dregst nú eftir efstu lögum lofthjúps jarðar áður en geimstöðin hrapar loks til jarðar. Myndin var tekinn á eyjunni Réunion í Indlandshafi.
Tiangong-1 dregst nú eftir efstu lögum lofthjúps jarðar áður en geimstöðin hrapar loks til jarðar. Myndin var tekinn á eyjunni Réunion í Indlandshafi. Vísir/AFP
Útlit er fyrir að kínverska geimstöðin Tiangong-1 hrapi til jarðar og brenni upp í lofthjúpnum í dag eða nótt. Nær engar líkur eru taldar á því að brak úr geimstöðinni nái alla leið til jarðar á byggðu bóli.

Yfirleitt væri hrapi geimstöðvar sem tekin hefur verið úr notkun stýrt nákvæmlega þannig að brakið lenti í suðurhöfum. Kínverjar misstu hins vegar samband við Tiangong-1 árið 2016. Geimstöðin er nú við efri mörk lofthjúps jarðar og var búist við því að hún hrapaði einhvern tímann á milli miðnættis í gær og aðfararnætur mánudags.

Tiangong-1 er tíu metra löng og 8,5 tonn að þyngd. Talið er að allt að 20-40% af geimstöðinni gæti náð alla leið til yfirborðs jarðar, það er á bilinu eitt og hálft til þrjú og hálft tonn.

Richard Crowther, aðalverkfræðingur Evrópsku geimstofnunarinnar (ESA), segir við breska ríkisútvarpið BBC að vel sé fylgst með hrapinu vegna þess hversu massamikil og sterkbyggð geimstöðin er. Þrettán geimvísindastofnanir fylgjast nú með sporbraut Tiangong-1.

„Meirihluti geimstöðvarinnar brennur líklega upp þegar hún kemur inn í lofthjúpinn og mestar líkur eru á því að brot sem komast í gegn lendi í hafinu,“ segir Crowther.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×