Innlent

Ráðuneyti taka höndum saman

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lilja Alfreðsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson handsala hér samkomulagið.
Lilja Alfreðsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson handsala hér samkomulagið. Stjórnarráðið
Ráðuneyti mennta- og menningarmála og utanríkisráðuneytið hafa gert með sér samkomulag um að móta sameiginlega stefnu um áherslur og framkvæmd alþjóðlegs menningarsamstarfs. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra skrifuðu undir samkomulag þess efnis á dögunum.

Í tilkynningu frá ráðuneytunum er haft eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, að henni þyki listamenn vera mikilvægir sendiherrar Íslands á erlendri grundu. „Starf kynningarmiðstöðva, sendiráða og annarra sem vinna að því að kynna íslenska menningu á erlendri grundu hefur skilað miklum árangri. Íslenskri sköpun er miðlað um allan heim og meðvitund okkar um efnahagslega þýðingu hennar er sífellt að aukast. Aukið samstarf við utanríkisráðuneytið er okkur dýrmætt til að stilla saman strengi og tryggja í sameiningu að íslensk menning megi ferðast sem víðast,“ er haft eftir Lilju.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, tekur í sama streng í tilkynningunni. „Lögum samkvæmt er það eitt meginhlutverk utanríkisráðuneytisins að standa vörð um menningarhagsmuni Íslands erlendis. Í skýrslunni Utanríkisþjónusta til framtíðar sem nýverið kom út er m.a. gerð tillaga um að utanríkisþjónustan auki samráð við útflutningsfyrirtæki, kynningarmiðstöðvar, fagráðuneyti og Íslandsstofu um stefnumótun og aðgerðaáætlun, þ.m.t. ráðgjöf, hvað varðar átak í markaðssetningu og útflutningi menningarafurða. Samkomulagið sem við ráðherrarnir undirrituðum og fundur með forystufólki kynningarmiðstöðvanna er mikilvægt fyrsta skref í þeirri framkvæmd,“ segir Guðlaugur.

Nánar má fræðast um málið á vef stjórnarráðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×