Pálmi Rafn Pálmason var hársbreidd frá því að tryggja KR-ingum eitt stig þegar að hann jafnaði metin í 1-1 í byrjun uppbótartímans en vesturbæjarstórveldið fékk kalda tusku í andlitið í næstu sókn heimamanna.
Þrátt fyrir naumt tap á síðustu andartökum leiksins voru Valsmenn töluvert betri aðilinn og voru með boltann 69 prósent af leiknum en KR 31 prósent.
KR-liðið var aðeins með boltann í 16 mínútur og 26 sekúndur, langminnst allra liða í umferðinni. Víkingar voru næst minnst með boltann eða 21 mínútu á móti Fylki en höfðu hann þó í 47 prósent af leiknum. Boltinn var reyndar bara í leik í tæpar 45 mínútur í þeim leik.
KR-ingar áttu einnig lang fæstar sendingar allra liða í umferðinni eða 278, þar af 173 heppnaðar eða 62 prósent. KR-liðið reyndi fæstar sendingar, var með fæstar heppnaðar og verstu sendingaprósentuna.
Íslandsmeistararnir voru ekki bara yfir í fagurfræðinni heldur einnig í baráttunni. Valsmenn fóru í flest návígi/pressu allra liða deildarinnar í umfeðrinni eða 182 og unnu 111 af þeim eða 62 prósent sem var hæsta hlutfall umferðarinnar.
Þarna voru KR-ingar á botninum þegar kom að heppnuðum návígum en þeir unnu 71 af 182 eða 39 prósent. Næstir komu KA-menn sem unnu baráttu um boltann í 42 prósent skipta sem að þeir fóru í návígi.