Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur sent formlega viðvörun til kínverskra yfirvalda vegna lasergeisla sem hafa blindað bandaríska flugmenn í aðflugi við herstöð í Afríkuríkinu Djibouti. Tveir flugmenn eru sagðir hafa hlotið minniháttar meiðsl í einu tilviki og flugöryggi hafi ítrekað verið stefnt í hættu.
Talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins segir að geislarnir séu öflugir, þeir hafi komið frá kínverskri herstöð í Djibouti og beinst gegn bandarískum herflugvélum á svæðinu. Þetta hafi gerst allt að tíu sinnum síðustu mánuði.
Bandaríska herstöðin Camp Lemonnier í Djibouti, sem hýsir um fjögur þúsund hermenn, er eina varanlega herstöð Bandaríkjamanna í Afríku. Þaðan hafa þeir gert loftárásir á Sómalíu og Jemen. Kínverjar reka herstöð í aðeins nokkurra kílómetra fjarlægð frá Camp Lemonnier.
Segja Kínverja reyna að blinda bandaríska herflugmenn með lasergeislum
Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
