Erlent

Hátíðarhöld í Ísrael í fjarveru erlendra sendiherra

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Útspil forsetans virðist ekki stíga í takt við alþjóðasamfélagið því hátíðarhöldin fara fram í fjarveru flestra erlendra sendiherra.
Útspil forsetans virðist ekki stíga í takt við alþjóðasamfélagið því hátíðarhöldin fara fram í fjarveru flestra erlendra sendiherra. vísir/afp
Í kvöld hófust hátíðarhöld í Ísrael sem Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra landsins, efndi til í tilefni af því að sendiráð Bandaríkjanna verður flutt frá Tel Aviv til Jerúsalem á morgun.  

Ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að færa sendiráðið hefur víða um heim verið gagnrýnd harðlega og er það álit margra að hún verði til þess að ógna friðarviðræðum Ísraels og Palestínu en báðar þjóðir gera tilkall til Jerúsalem.

Útspil Donalds Trump virðist ekki stíga í takt við alþjóðasamfélagið því heimildir Reuters herma að hátíðarhöldin fari fram í fjarveru flestra erlendra sendiherra. Það sé tákn um andstöðu við stefnu Bandaríkjanna í Ísrael. 

Ákvörðun Donalds Trump að færa sendiráðið er liður í því að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísrael. Ivanka Trump, dóttir forsetans, og eiginmaður hennar Jared Kushner, verða viðstödd opnun sendiráðsins á morgun en þau komu til Ísrael í dag.

„Trump, gerum Ísrael glæst á ný“

Götur í Jerúsalem voru skreyttar í tilefni af flutningunum. Víða mátti sjá bandaríska fánann með áletruninni „Trump, gerum Ísrael glæst á ný“ og þá voru blómabeð meðfram götum í bandarísku fánalitunum.

Netanyahu hvatti önnur ríki til að fara að fordæmi Bandaríkjastjórnar og flytja sín sendiráð til Jerúsalem. „Færið sendiráðin ykkar til Jerúsalem því það mun hraða friðarviðræðum vegna þess að þú getur ekki byggt frið á grunni lyga,“ segir forsætisráðherrann.

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, er aftur á móti nóg boðið og segir útspil Trumps vera „kjaftshögg aldarinnar“.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×