Felix sat fundinn í fjarveru Skarphéðins Guðmundssonar, dagskrárstjóra RÚV, sem er erlendis, en fundinn sat einnig framkvæmdastjórn Eurovision-keppninnar á Íslandi. Um 25 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun þess efnis að Ísland taki ekki þátt í Eurovison í Ísrael á næsta ári.
„Okkar hlutverk á þessum fundi var nú fyrst og fremst að hlusta á og heyra hans sjónarmið í málinu en svo höldum við bara áfram að vinna að málinu hér innanhúss eins og áður,“ segir Felix.

„Við munum taka okkur þann tíma sem við þurfum til að fara í gegnum málið og hlusta á þá sem vilja við okkur tala,“ segir Felix.
„Þetta var afslappaður og ágætur fundur. Þau hlustuðu á mín sjónarmið og gerðu mér grein fyrir því að formlegur ferill við ákvörðun um þátttöku í keppninni væri ekki hafinn en gáfu mér engin fyrirheit um ákvörðun í því, hvorki jákvæð né neikvæð,“ segir Raphael Schutz, sendiherra Ísraels, og bætir við: „En það var mikilvægt fyrir mig að koma því á framfæri að Ísrael myndi bíða þeirra án tillits til þess í hvaða borg keppnin fer fram.
Sendiherrann boðaði til blaðamannafundar í Reykjavík í gær þar sem hann fór yfir stöðuna á Gasa frá sjónarhorni Ísraelsmanna. Í yfirlýsingu hans á fundinum kom fram að, eins og umræðan hér á landi blasti við honum virtust íslenskir fjölmiðlar hafa þau viðhorf til átakanna á Gasa að Ísraelar hefðu viljandi og af blóðþorsta drepið fjölda friðsamra mótmælenda fyrr í mánuðinum. Hann sagði þetta eins langt frá sannleikanum og hugsast gæti.