Landspítalinn hefur óskað eftir því við Reykjavíkurborg að fá tímabundin afnot af landi við Umferðarmiðstöðina, BSÍ, undir 237 bráðabirgðabílastæði vegna framkvæmda við spítalann. Afgreiðslu erindis þess efnis var frestað á fundi borgarráðs á fimmtudag.
Í beiðni Nýs Landspítala ohf. kemur fram að vegna fyrirhugaðra framkvæmda innan lóðar Landspítalans muni stór hluti núverandi bílastæða spítalans og Háskóla Íslands lenda innan framkvæmdasvæðisins. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í næsta mánuði og standi yfir til ársloka 2021.
„Á framkvæmdatíma er nauðsynlegt að tryggja aðgengi að spítalanum fyrir sjúklinga, gesti spítalans og starfsfólk, því er þörf á bráðabirgðabílastæðum bæði innan og utan lóðar Landspítalans,“ segir orðrétt í umsókn spítalans.
Gert er ráð fyrir að malbikuðum bráðabirgðabílastæðum verði komið fyrir á grænum reitum norðan við BSÍ milli Vatnsmýrarvegar og Gömlu Hringbrautar. Áætlað er að 87 bílastæði verði á eystri grasreitnum en 150 á þeim vestari.
Gert er ráð fyrir því að bílastæðin verði gjaldskyld fyrir gesti spítalans en að starfsfólk og nemendur við Landspítalann muni hafa sérstök bílastæðakort. Nýr Landspítali mun lagfæra reitina á eigin kostnað að framkvæmdum loknum nema að um annað semjist.
Grænir reitir við BSÍ víki fyrir bráðabirgðabílastæðum spítalans
Jóhann Óli Eiðsson skrifar
