Stéttarfélögin hætta snemma
Tryggingafélögin VÍS og Sjóvá hyggjast hleypa starfsmönnum heim áður en leikur hefst, Sjóvá lokar klukkan 14 og VÍS klukkan 14:30.Þá mun fólk víða koma að lokuðum dyrum hjá stéttarfélögunum, hyggist það leita sér aðstoðar á leiktíma, en skrifstofur Rafiðnaðarsambands Íslands loka klukkan 13:30, BHM og sjóðir loka klukkan 14 og Báran stéttarfélag, Efling og VR klukkan 14:30. Þá hvetur hið síðastnefnda önnur fyrirtæki að gera slíkt hið sama.

Hlé gert á útkeyrslu hjá Póstinum
Ýmsum verslunum verður einnig lokað vegna viðureignar Íslands og Nígeríu. Þar má nefna verslanir Geysis, Thors, Lundans og Fjallraven í miðborg Reykjavíkur og á Akureyri, þar sem það á við. Verslun Pfaff við Grensásveg lokar klukkan 14 og verslun ProGastro í Ögurhvarfi í Kópavogi lokar klukkan 14:30.Þá lokar á afgreiðslustöðum og í þjónustuveri Póstsins klukkan 14:30 en tímabundið hlé verður gert á annarri starfsemi, þ. á m. útkeyrslu, sem hefst aftur klukkan 17:30.

Reykjavíkurborg tekur mið af leiknum
Á vef Reykjavíkurborgar kemur auk þess fram að þjónusta verði með minnsta móti eftir klukkan 15 vegna leiksins. Ekki standi þó til að loka starfsemi á borð við sundlaugar og leikskóla, þó að foreldrar séu hvattir til að sækja börn sín fyrir leik í einhverjum tilvikum.Leikskólinn Laufásborg, sem er hjallastefnuleikskóli og ekki rekinn á vegum borgarinnar, hefur mælst til þess við foreldra að sækja börnin áður en klukkan slær 15. Matthildur L. Hermannsdóttir, leikskólastjóri Laufásborgar, sagði í samtali við Vísi að foreldrar hafi allir tekið vel í tillögu leikskólastjórnenda en að sjálfsögðu verði ekki skellt alfarið í lás ef einhverjir nái ekki í tæka tíð fyrir klukkan 15.

Kringlan og Smáralind standa opnar
Fiskistofa lokar auk þess klukkan 14, sama gildir um Gallerí Fold og skrifstofur Birtu lífeyrissjóðs sem loka klukkan 14:30. Þá verður Útlendingastofnun lokuð allan daginn vegna starfsdags en ekki kemur fram hvort lokunin tengist leiknum.Íbúar á höfuðborgarsvæðinu munu þó geta lagt leið sína í tvær stærstu verslunarmiðstöðvar landsins, Kringluna og Smáralind, á leiktíma en þar verður opnunartími með hefðbundnum hætti, frá 11-19 á báðum stöðum. Þá vekur Kringlan sérstaka athygli á HM-stofunni, sem opin er öllum Kringlugestum í rými þar sem verslunin Zara var áður til húsa.