Erlent

Náðu mynd af nýfæddri reikistjörnu í fyrsta sinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Reikistjarnan kemur fram sem bjartur blettur hægra megin við svarta miðju myndarinnar. Vísindamennirnir notuðu svonefnda kórónusjá til þess að hylja ljósið frá stjörnunni í miðju nýja sólkerfisins til þess að þeir gætu séð efnisskífuna og reikistjörnuna sem annars hyrfu í glýju stjörnunnar.
Reikistjarnan kemur fram sem bjartur blettur hægra megin við svarta miðju myndarinnar. Vísindamennirnir notuðu svonefnda kórónusjá til þess að hylja ljósið frá stjörnunni í miðju nýja sólkerfisins til þess að þeir gætu séð efnisskífuna og reikistjörnuna sem annars hyrfu í glýju stjörnunnar. ESO/A. Müller et al.
Stjörnufræðingar hafa náð því sem þeir telja fyrstu staðfestu myndinni af reikistjörnu í mótun á braut um nýja stjörnu. Mælingar benda til þess að reikistjarnan sé gasrisi með skýjaðan lofthjúp.

Fjarreikistjarnan er á braut um PDS 70, unga dvergstjörnu, að því er segir í frétt á vef ESO, evrópsku stjörnustöðvarinnar á Suðurhveli. Stjarnan er svo ung að hún er enn umkringd ryk- og gasskífu sem reikistjarnan plægir sig í gegnum.

Myndinni af reikistjörninni, sem hlotið hefur nafnið PDS 70b, náðu vísindamenn við Max Planck-stjörnufræðistofnunina í Þýskalandi, með SPHERE-reikistjörnuleitartækinu á VLT-sjónauka ESO í Síle. Þetta er í fyrsta skipti sem vísindamenn hafa getað staðfest að þeir hafi komið auga á reikistjörnu í myndun í rykskífu í kringum stjörnu.

PDS 70b er um þrjá milljarða kílómetra frá móðurstjörnu sinni, um það bil jafnlangt og fjarlægðin á milli sólarinnar og Úranusar. Reikistjarnan er nokkrum sinnum efnismeiri en Júpíter, stærsta reikistjarnan í sólkerfinu okkar. Hitinn við yfirborð gasrisans er talinn um 1.000°C. Það er margfalt heitara en á Venusi, heitustu reikistjörnunni í okkar sólkerfi.

Í frétt Space.com kemur fram að móðurstjarnan sé um 5,4 milljóna ára gömul. Hún er í um 370 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Athuganirnar geta hjálpað stjörnufræðingum að skilja betur hvernig reikistjörnur myndast úr efnisskífum sem þessari. Eftir að vísindamennirnir komust að eiginleikum reikistjörnunnar gátu þeir prófað kennileg líkön sem skýra myndun reikistjarna.

„Við urðum að gera mælingar á reikistjörnunni í skífunni til að skilja betur ferlin sem liggja að baki myndun hennar,“ segir André Müller, einn þeirra sem hafði umsjón með mælingunum.


Tengdar fréttir

Vísbendingar um fyrsta fjartunglið í fjarlægu sólkerfi

Fjartungl sem vísindamenn hafa séð vísbendingar um gæti verið á stærð við Neptúnus, margfalt stærri en nokkurt tungl í sólkerfinu okkar. Tungl eru talin mikilvæg fyrir lífvænleika reikistjarna en ekkert slíkt hefur fundist utan sólkerfis okkar enn sem komið er.

Mögulega lífvænlegur hnöttur í rólegu hverfi

Fjarreikistjarnan Ross 128b er á stærð við jörðina og á braut um stjörnu sem gæti hentað betur fyrir möguleikann á lífi en margar aðrar sem fundist hafa fram að þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×