Kannanir höfðu gefið til kynna að Obrador, sem eitt sinn var borgarstjóri Mexíkóborgar, hafi hlotið rúmlega helming atkvæða.
Helstu keppninautar hans í kjörinu hafa lýst yfir ósigri og sent Obrador hamingjuóskir. Þeirra á meðal er leiðtogi Byltingarflokksins, en flokkurinn hefur nær alfarið haldið um stjórnartaumana í Mexíkó síðastliðna öld.
Þá sendi Donald Trump Bandaríkjaforseti Obrador heillaóskir á Twitter í gærkvöld. Hann segist hlakka til að vinna með sigurvegaranum enda sé mikið verk að vinna í samskiptum ríkjanna.
Congratulations to Andres Manuel Lopez Obrador on becoming the next President of Mexico. I look very much forward to working with him. There is much to be done that will benefit both the United States and Mexico!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) July 2, 2018
Stjórnarskrá landsins heimilar forsetum aðeins að sitja eitt, sex ára langt kjörtímabil og var því sitjandi forseti, Enrique Piena Nieto, ekki í framboði.
Það var ekki aðeins kosið um forsetastólinn heldur fóru kosningar til efri og neðri deildar þingsins fram samtímis sem og kosningar til borgar- og sveitarstjórna. 88 milljón manns voru á kjörskrá og um 18 þúsund sæti í boði.
Frá því að kosningabaráttan hófst í september hafa 130 frambjóðendur og starfsmenn framboða verið myrtir. Spilling í landinu er mikil og svifust margir einskis í baráttunni til að tryggja að sinn frambjóðandi stæði uppi sem sigurvegari.