Fótbolti

Pelé hótar því að byrja aftur ef Mbappé heldur áfram að bæta metin hans

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pelé skoraði tvö í úrslitaleiknum á móti Svíþjóð árið 1958.
Pelé skoraði tvö í úrslitaleiknum á móti Svíþjóð árið 1958. vísir/getty
Franska ungstirnið Kylian Mbappé varð í gær aðeins annar táningurinn í sögunni sem skorar mark í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í fótbolta en hann skoraði fjórða mark Frakka í 4-2 sigri á Króatíu.

Eini maðurinn sem hafði komið í boltanum í netið í úrslitaleik HM fyrir tvítugt var brasilíska goðsögnin Pelé. Hann skoraði tvö mörk í úrslitaleik á móti Svíþjóð í Svíþjóð árið 1958.

Pelé var á þeim tíma yngsti maðurinn til að spila á HM og á enn þá metið yfir yngsta manninn sem skorað hefur þrennu á HM en hann var þarna 17 ára gamall og skoraði þrennu í undanúrslitum á móti Frakklandi.





Pelé var útnefndur besti ungi leikmaður HM 1958 en sömu viðurkenningu fékk Mbappé í gær. Luka Modric var útnefndur besti leikmaður HM en Pelé fékk þann titil á HM 1970 þar sem að hann vann heimsmeistaratitilinn með Brasilíu í þriðja sinn.

Brasilíska goðsögnin grínaðist með gæði Mbappé í gær en hann skellti sér á Twitter eftir að Frakkinn skoraði í úrslitaleiknum og sagði: „Ef Kylian heldur áfram að jafna metin mín neyðist ég til að dusta rykið af skónum mínum.“

Pelé er 77 ára gamall og lagði skóna á hilluna fyrir 41 ári síðan en það er aldrei að vita hvort sömu töfrarnir leynast ekki í gömlu skónum hans.


Tengdar fréttir

Frakkar Heimsmeistarar í annað sinn

Frakkar eru Heimsmeistarar í knattspyrnu eftir 4-2 sigur á Króötum í mögnuðum úrslitaleik í Moskvu þar sem Pogba, Mbappe og Griezmann skoruðu allir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×