Fótbolti

Lovren: Hættið að bulla og viðurkennið að ég er einn besti varnarmaður heims

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dejan Lovren er ánægður með frammistöðu sína undanfarna mánuði.
Dejan Lovren er ánægður með frammistöðu sína undanfarna mánuði. vísir/getty
Dejan Lovren, miðvörður króatíska landsliðsins í fótbolta, var heldur betur sáttur með sig og króatíska liðið eftir sigurinn á Englandi í undanúrslitum HM 2018 í fótbolta í gær.

Króatar eru nú komnir í úrslitaleikinn í fyrsta sinn í sögunni eftir sigur í framlengdum leik þar sem að króatíska liðið átti erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik. Það tók svo völdin í þeim síðar.

„Fyrri hálfleikurinn var erfiður. Við náðum ekki að stýra leiknum og enska liðið fékk góð færi. Í seinni hálfleik vorum við að spila betur og nýttum plássið betur á vængjunum. Við náðum að skora og í framlengingunni sýndum við að við getum spilað okkar leik þrátt fyrir að vera þreyttir,“ sagði Lovren við beIN Sport eftir leikinn.

Lovren var svo spurður hvaða þýðingu þetta allt saman hefði fyrir hann eftir nokkra gagnrýni með Liverpool á síðustu leiktíð og einnig fyrir Luka Modric sem er að reyna að vinna króatísku þjóðina aftur á sitt band.

„Þetta er sérstakt fyrir mig. Fólk hefur sagt að ég átti erfiða leiktíð en ég er ekki sammála því. Ég kom Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og nú er ég kominn með landsliðinu mínum í úrslitaleik HM,“ sagði Lovren.

„Fólk ætti að viðurkenna að ég er einn af bestu varnarmönnum heims en ekki bara bulla. Modric er ekki einn af bestu miðjumönnum heims heldur er hann sá besti. Ef við vinnum HM á hann skilið að fá Gullboltann,“ sagði Dejan Lovren.


Tengdar fréttir

Kane: Mjög sárt en þeir spiluðu betur

Englendingar spila um bronsverðlaun á HM í Rússlandi eftir tap gegn Króötum í framlengdum undanúrslitaleik í Moskvu í kvöld. Fyrirliðinn Harry Kane sagði vonbrigðin mikil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×