Erlent

Trump verði að virða vini sína

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Donald Trump stígur hér inn í forsetaþyrluna er hann hélt til móts við NATO-leiðtogana í Brussel.
Donald Trump stígur hér inn í forsetaþyrluna er hann hélt til móts við NATO-leiðtogana í Brussel. Vísir/getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti mætir síðar í dag á leiðtogafund NATO í Brussel og er búist við hörðum deilum á fundinum. Á leið sinni á fundinn gagnrýndi forsetinn Evrópusambandið harðlega vegna framgöngu sambandsins í viðskiptum- og tollamálum og skammaði NATO-ríkin fyrir að leggja ekki nógu mikla peninga til varnarmála. Trump hefur lengi hamrað á því að hin NATO-ríkin borgi ekki sinn skerf til varnarbandalagsins.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, var hins vegar fljótur til svars og sakaði Trump um að gagnrýna Evrópuríkin nánast daglega.

„Kæra Ameríka, virðið vini ykkar, þegar allt kemur til alls eigið þið ekki svo marga,“ sagði Tusk á blaðamannafundi í gær.

Tusk benti ennfremur á að hvað sem kvörtunum Trump liði um lítil fjárútlát Evrópuríkjanna til varnarmála, væri það nú samt sem áður svo að ESB-ríkin eyða meiru til varnarmála en Rússar og Kínverjar.

Þessa stundina standa Bandaríkin straum af um 22% rekstrarkostnaðar NATO. Evrópskir ráðamenn benda þó á að einungis 15% af heildarútgjöldum Bandaríkjanna til varnarmála sé varið í Evrópu eða í verkefnum á vegum NATO.

Stjórnvöld í Washington verja árlega um 3,5% landsframleiðslu Bandaríkjanna í varnarmál. Grikkir, Bretar og Eistar verja um 2%.


Tengdar fréttir

Leiðtogar NATO-ríkjanna mætast á morgun

Leiðtogar Atlantshafsbandalagsins hittast í Brussel á morgun. Funda í þrjá daga. Fundarins beðið með eftirvæntingu og vangaveltur um hvað Bandaríkjaforseti geri og segi. Utanríkisráðherra Íslands segir málflutning Bandaríkjamanna nú í takt við fyrri forseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×