„Vellinum líður bara mjög vel,“ segir Kristinn V. Jóhannsson vallarstjóri á Laugardalsvelli í samtali við Vísi. „Eins og staðan er núna þá eru Fram og Þróttur að spila fótboltaleik á honum þannig að þetta gekk bara frábærlega.“

Sjá einnig: Rúmlega 25 þúsund manns sáu Guns N' Roses á Laugardalsvelli
Sérstakt gólf var lagt yfir völlinn fyrir tónleikana til að hlífa grasinu sem best. Þegar var hafist handa við að taka gólfið af vellinum að tónleikunum loknum og tók verkið töluverðan tíma. Aðspurður segir Kristinn að þrátt fyrir að völlurinn sé í góðu ásigkomulagi sjái örlítið á honum.
„Við tökum alveg eftir því að það hafi verið tónleikar á vellinum. En þetta er ekkert sem við bjuggumst ekki við eða vorum ekki undirbúin fyrir.“
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær talaði Kristinn um að svæðið undir sviðinu, sem var níðþungt, hafi verið stærsta spurningarmerkið. Inntur eftir því hvort þunginn muni koma til með að hafa varanleg áhrif á völlinn segir Kristinn það ólíklegt.
„Ég get ekki sagt það. Af því að við fórum í verkefni þar sem við vorum að gera allt í fyrsta skipti þá vorum við með... kannski ekki áhyggjur, heldur vissum ekki alveg hvað tæki við þegar gólfið færi af. Við vorum búin að gera okkur hugmyndir um það og bjuggumst við því sem birtist í nótt,“ segir Kristinn.
„Varanleg áhrif birtast kannski seinna en það er þá eitthvað sem við tæklum þá. Tíminn verður bara að leiða það í ljós.“