Innlent

Metsala á heitu vatni í rysjóttri tíð

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Við erum bara að kynda meira húsin okkar og það hefur verið kalt, segir upplýsingafulltrúi Veitna.
Við erum bara að kynda meira húsin okkar og það hefur verið kalt, segir upplýsingafulltrúi Veitna. VÍSIR/Egill
Metsala hefur verið á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu það sem af er ári og er notkunin fyrstu sex mánuði ársins um tíu prósentum meiri en að meðaltali á ári. Notkun á heitu vatni hefur aukist um ríflega 20 prósent á síðustu fimm árum.

Notkunin á heitu vatni það sem af er ári var mest í janúar og svo aftur í júní en í fjórum af sex fyrstu mánuðunum hefur notkunin verið meiri en árin á undan.

Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, segir rysjótta tíð hluta skýringarinnar.

„Ég held að það hafi ekki farið fram hjá neinum hvernig veðrið hefur verið hérna á Suðurlandi í sumar og vor. Ætli það sé ekki helsta ástæðan. Við erum bara að kynda meira húsin okkar og það hefur verið kalt,“ segir Ólöf.

Stærsti hluti heita vatnsins fer til húshitunar, eða um 90 prósent og segir Ólöf að fólk ætti að huga að heitavatnsnotkun sinni.

„Þróunin síðustu árin hefur verið þannig að það hefur verið mikil aukning í notkun á heitu vatni. Það hefur mikil uppbygging á höfuðborgarsvæðinu. Aukin ferðamennska og annað, til dæmis hótelbyggingar, fjöldi þeirra hefur áhrif á hversu mikið heitt vatn við þurfum.“

Hún segir meðalheimili nota fjögur til fimm tonn á hvern fermetra á húsnæði, það sé töluvert. Hún segir Íslendinga duglega að hita hús sín enda með gott aðgengi að heitu vatni en það þurfi að huga að því að fara vel með það.

Vatnsnotkun hefur aukist um 20 prósent á síðastliðnum 5 árum og segir Ólöf það ekki koma á óvart að það muni aukast enda fari kerfið stækkandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×