Erlent

Segir samráð við Rússa ekki glæp og að Trump sé alsaklaus

Kjartan Kjartansson skrifar
Rudy Giuliani vill meina að Trump forseti sé blásaklaus en samráð við erlent ríki sé hvort eð er ekki glæpur.
Rudy Giuliani vill meina að Trump forseti sé blásaklaus en samráð við erlent ríki sé hvort eð er ekki glæpur. Vísir/AFP
Lögmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta hélt því fram í dag að það væri ekki lögbrot ef forsetaframboð Trump hefði átt í samráði við rússnesk stjórnvöld um að hafa áhrif á kosningarnar árið 2016. Hvað sem því liði væri skjólstæðingur hans blásaklaus.

Sérstakur rannsakandi stýrir nú rannsókn á því hvort að framboð Trump hafi átt í samráði við útsendara stjórnvalda í Kreml fyrir forsetakosningarnar fyrir tveimur árum um að hafa áhrif á úrslit þeirra og jafnframt hvort að Trump hafi freistað þess að hindra framgang rannsóknarinnar.

Í viðtölum í bandarísku sjónvarpi í dag sagðist Rudy Giuliani, lögmaður Trump, hafa reynt að finna samráð við erlend stjórnvöld í alríkishegningarlögum en án árangurs. Forsetinn væri algerlega saklaus af öllum glæpum.

„Samráð er ekki glæpur,“ fullyrti Giuliani. Trump hefur sjálfur ítrekað hafnað því að framboðið hafi staðið í slíku samráði og kallað rannsóknina „nornaveiðar“. Nokkrir fyrrverandi starfsmenn framboðsins og ráðgjafar forsetans hafa þó verið ákærðir í tengslum við rannsóknina.

„Þegar þú byrjar að greina glæpinn, þá er tölvuinnbrotið glæpurinn. Forsetinn braust ekki inn í tölvur. Hann borgaði þeim ekki fyrir að tölvuinnbrot,“sagði Giuliani við CNN-fréttastöðina.

Rússneskir tölvuþrjótar á vegum stjórnvalda í Kreml eru taldir hafa brotist inn í tölvupósta Demókrataflokksins og Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda hans, fyrir kosningarnar árið 2016. Vísbendingar hafa komið fram um að starfsmenn framboðs Trump hafi fengið vitneskju um að Rússar byggju yfir tölvupóstunum áður en uppljóstranavefurinn Wikileaks hóf að birta þá.


Tengdar fréttir

Trump þvertekur fyrir að hafa vitað af Rússafundinum

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, neitar því að hafa vitað fyrirfram af fundi ráðgjafa sinna með rússneskri sendinefnd sem fór fram í Trump-turni í aðdraganda forsetakosninganna árið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×